Hægðu á þér, gefðu þér tíma til að njóta og vertu þátttakandi í eigin lífi.

 

Það er ótrúlega auðvelt að týna sér í hraða daglegs lífs, gleyma að vera og gleyma að njóta.

Lífið fýkur framhjá og einn daginn vöknum við og áttum okkur á hverju við höfum misst af, misst af að njóta í eigin lífi. Árið 2014 lagði ég af stað í ferðalag með sjálfa mig, hafði engan áfangastað í huga en hafði væntingar til þess sem ég vildi sjá og finna á þessu ferðalagi mínu. Ástæðan var einföld, ég var komin á stað þar sem staðan var ansi litlaus og leiðinleg.

Ég var hætt að njóta eins og ég vildi gera og hver dagur flaut framhjá mér af gömlum vana. Það má eiginlega segja að ég hafi ekki verið þátttakandi í eigin lífi. Núna rúmlega 6 árum seinna er áfangastaðurinn orðin að heimili mínu ég búin að koma mér vel fyrir. Flugtak og lending voru ekki hnökralaus en þegar horft er til baka var þetta allt þess virði.

Ég kunni heldur ekkert að fljúga á þessum slóðum svo ég þurfti að sýna þolinmæði og vera móttækileg fyrir því sem mér var kennt. Ég þurfti að draga úr hraðanum, opna augun og sjá það sem var beint fyrir framan nefið á mér og bæta við því sem vantaði. Í dag er ég ekki aðeins þiggjandi heldur gef ég líka áfram það sem mér hefur verið gefið.

 Mikilvægur lærdómur sem ég hef tileinkað mér í daglegu lífi og langar að miðla áfram til þín lesandi góður er að lífið er margskonar. Sumir dagar eru eins og miðnætti um áramót á meðan aðrir minna á kaldan janúarmorgun, svo eru það þessir “venjulegu” sem mæta og hverfa án nokkurra sýninga eða skort á ljósi. Það sem ég hef tileinkað mér er að njóta þeirra allra því allir eru þeir dýrmætir á sinn hátt og mikilvægir í keðju lífsins. Dagarnir sem minna á kalda janúarmorgna kenna okkur að meta þá sem fljóta framhjá á þægilegan máta og dagarnir sem minna á miðnætti um áramót minna okkur á að lífið getur líka minnt á sýningu.

 Mikilvægt er að vakna hvern dag og byrja hann með þakklæti og njóta þess sem hann bíður okkur uppá, því þessi dagur er bara hér í dag.

 Gefðu þér tíma til að hafa tíma, ekki hlaupa í gegnum daginn og verkefnin sem mæta þér með kvíðahnút í maganum, telja niður í dags lok, leggjast svo á koddann án þess að hafa notið þess sem dagurinn bauð þér uppá. Því mundu, þessi dagur er bara í dag.

 Hægðu á þér, gefðu þér tíma til að njóta og vertu þátttakandi í eigin lífi.

 HeiðaÓsk.

 

Aðalheiður Ósk heiti ég, oftast kölluð Heiða Ósk. Ég er fíkni,- og forvarnaráðgjafi, ásamt því að vera NLP markþjálfi. Ég sérhæfi mig í fíknum, bata, fjölskyldumálum og persónulegri markþjálfun.

Mér finnst tilvalið að byrja þessi skrif hér á kynningu á mér. Til gamans má nefna að við Elvar, stofnandi Þú skiptir máli kynntumst í Forvarnarskóla Íslands þegar við stunduðum bæði nám þar árið 2011. Síðan þá hef ég bætt við mig framhaldsmenntun frá Ráðgjafarskóla Íslands, lært NLP markþjálfun og setið hin ýmsu námskeið.

Undanfarin ár hef ég starfað að mestu í þessum málaflokki, má þar nefna Frú Ragnheiði, skaðaminnkunar verkefni Rauða krossins - Píeta samtökin, forvarnarsamtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða - rekstur á eigin stofu og fb síðunni HeiðaÓsk fíkniráðgjöf & markþjálfun - stefnumótun áfangaheimilis - Það er Von, góðgerðar og forvarnarsamtök og nú í Covid 19 faraldrinum hef ég verið í bakvarðasveit sem snýr að almennri ráðgjöf og stuðning í farsóttarhúsi á vegum Rauða kross Íslands.

Persónuleg reynsla í þessum málaflokki er einnig mikil, en sjálf hef ég barist við fíknisjúkdóm ásamt því að vera uppkomið barn alkóhólista. Verkefni lífsins hafa verið margskonar og hef ég geta dregið mikinn lærdóm af þeim.

Eins og sést brennur hjarta mitt í þessum málaflokki og get ég ekki sagt annað en að ég hlakki til komandi tíma hér á síðunni.

Kærar kveðjur Heiða Ósk ráðgjafi & markþjálfi.