Ungt fólk

Einangrun aldurshópa

Þjóðfélagið er nú með þeim hætti, að flestir eyða mestum tíma með jafnöldrum, á leikskólum, grunnskólum, í vinnunni, á elliheimilinu. Aldurshóparnir vita tiltölulega lítið hver um annan. Foreldrar margra unglinga koma til dæmis örsjaldan inn í skólann, sem unglingarnir sækja daglega og myndu ekki fyrir sitt litla líf þora að stíga fæti inn í félagsmiðstöðvarnar. Þeim finnst jafnvel vond staða, ef þeir þurfa að skreppa út í sjoppu á föstudagskvöldi og eiga á hættu að ryðjast þar inn á unglinginn sinn og vini hans. Og þeir fá jafnvel skömm í hattinn frá unglingnum fyrir að troða sér þannig inn í heim hans. Við eru búin að skilgreina einhver heimamörk unglinga sem foreldrar mega ekki fara inn á. Auðvitað hafa unglingar þörf fyrir að vera út af fyrir sig og ekki undir smásjá fullorðna fólksins, en er ekki farið að ganga svolítið langt?

Börn og lygar

"Barn lærir það sem fyrir því er haft", segir máltækið. Heiðarleiki og óheiðarleiki, lygi eða fals eru m.a. siðferðihugtök sem barnið lærir af umhverfinu. Standi foreldrar barnið sitt að lygum er það eðlilega áhyggjufullt.  

Börn á aldrinum 4-5 ára hafa yndi af því að hlusta á sögur og skálda sjálf heilu sögurnar sem eiga sér hvergi stoð í raunveruleikanum. Börn á þessum aldri eru oft með óljósar hugmyndir um hvað er raunverulegt og hvað ekki. Það er mjög vafasamt að flokka þessa sögugerð undir lygar, miklu frekar eru þær dæmi um óbeislað hugarflug.  

Eldra barn eða unglingur gæti logið í eigingjörnum tilgangi t.d. til að forðast skyldustarf eða til að þurfa ekki að taka afleiðingum af gjörðum sínum. Foreldrar ættu að bregðast við hverju og einu tilviki með því að tala við barnið og brýna fyrir því mikilvægi heiðarleika, sannleika og trausts.  

Sumir unglingar uppgötva að þægilegt getur verið að grípa til lyginnar viss tækifæri, eins og t.d. til að særa ekki kærustu eða kærasta með því að segja raunverulegu ástæðuna fyrir sambandssliti. Aðrir unglingar ljúga (oft að foreldrum) til að vernda einkalíf sitt eða til að finnast þeir vera aðskildir frá foreldrum sínum og sjálfstæðir.  

Stundum geta lygar gefið vísbendingar um geðræn eða tilfinningaleg vandamál. Börn sem þekkja muninn á lygi og sannleika, segja engu að síður flóknar skröksögur sem geta verið mjög trúverðugar. Börn og unglingar sem segja slíkar sögur fá gjarnan mikla athygli út á þessar sögur.  

Jafnvel ábyrgðarfullir unglingar og börn flækjast í net endurtekinna lyga. Þeim finnst lygin auðveldasta leiðin til að kljást við kröfur foreldra, kennara og vina. Þessi börn eru ekki að reyna að vera vond eða illgjörn en oft reynist þeim það ofviða að komast út úr vítahring lyginnar.  

Sumir unglingar nota lygar reglulega til að fela önnur alvarleg vandamál. Til dæmis mun unglingur sem á við fíkniefnavandamál að etja ljúga sí og æ hvar hann hafi dvalið, með hverjum að gera hvað og í hvað peningarnir hans fara.  

Hvað á gera ef barn eða unglingur lýgur? 
Foreldrar eru mikilvægustu fyrirmyndir barna sinna. Þegar barn eða unglingur lýgur ættu foreldrar að taka sér tíma til að setjast niður og ræða um:  

∙         Muninn á milli raunveruleika og ímyndunar, lyga og sannleika  

∙         Mikilvægi þess að vera heiðarlegur heima og annars staðar  

∙         Aðra valkosti en lygar  

Ef barn eða unglingur kemur sér upp endurteknu og alvarlegu lygamynstri, gæti verið nauðsynlegt að fá hjálp frá fagmanneskju. Mat frá klínískum barnasálfræðingi eða barna- og unglingageðlækni gæti hjálpað barni og foreldrum til að skilja ástæðurnar fyrir lygunum og bent þeim á úrræði. 


Byggt á efni frá American Academy of Child & Adolescent Psychiatry
http://persona.is

Félagslegar aðstæður

Breytingar á þjóðfélaginu á þessari öld hafa verið geysilega hraðar og miklar og aðstæður fjölskyldunnar hafa gjörbreyst. Líf fjölskyldunnar í bændasamfélaginu snerist um þá framleiðslu, sem fjölskyldan byggði lífsviðurværi sitt á. Allir í fjölskyldunni höfðu sitt hlutverk, við skepnuhald, heyskap og fleira.

Í dag fer öll sú atvinna, sem fjölskyldan byggir lífsviðurværi sitt á, fram utan veggja heimilisins. Áður fyrr lærðu börn til verka af foreldrum sínum, en núna læra ungmenni, sem fara út á vinnumarkaðinn, af ókunnugum. Bara þetta eina atriði hefur breytt mjög möguleikum foreldra á að ala upp börn sín og hafa áhrif á þau.

Áður voru einnig mjög skörp skil milli bernsku og fullorðinsára. Auk hins trúarlega innihalds fermingarinnar var hún ákveðin manndómsvígsla og þorri fermingarbarna fór strax út á vinnumarkaðinn. Nú er hins vegar kominn biðsalur á milli bernskunnar og fullorðinsáranna. Unglingurinn er hættur að vera barn, en hann er ekki orðinn fullorðinn. Biðin í þessum biðsal unglingsáranna lengist stöðugt. Skólaskyldan hefur verið lengd, flestir fara í framhaldsskóla, atvinnuleysi á sjálfsagt eftir að lengja biðina enn meira og nú er þorri íslensks æskufólks í foreldrahúsum vel fram á þrítugsaldur.

Unglingsárin eru því, í þessum skilningi, farin að teygja sig fram yfir tvítugt og unglingurinn er í óvirku hlutverki nemenda og neytenda. Eitt af því sem fylgt hefur í kjölfar þessara breytinga, er einmitt að unglingar eru orðnir mjög mikilvægir sem neytendur. Þessi breyting byrjaði fyrir alvöru á 7. áratugnum, þegar foreldrar unglinganna í dag voru sjálfir unglingar. Áður voru unglingspiltar til dæmis nákvæmlega eins klæddir og feður þeirra á hátíðarstundum, í dökkum jakkafötum, hvítri skyrtu og með bindi. Fyrsta sérstaka tískuverslunin fyrir unglinga var opnuð í Reykjavík, en unglingar á landsbyggðinni kynntust unglingatískunni síðar enda ferðalög þeirra til höfuðborgarinnar takmörkuð. Núna er verslun við verslun og flestar reyna að höfða til æskunnar.

Svona var þetta einnig með tónlistana. Fyrir þrjátíu árum voru tveir útvarpsþættir í ríkisútvarpinu, sem léku popptónlist. Núna sérhæfa nokkrar útvarpsstöðvar sig í tónlist fyrir ungt fólk. Það væri hægt að nefna fjölmörg dæmi af þessum toga, um það hvernig ótal aðilar í verslun og þjónustu grundvalla rekstur sinn að verulegu leyti á viðskiptum við unglinga. Auk tískuverslana, myndbandaleigu, kvikmyndahús og sjoppur. Þetta þýðir auðvitað að það er dýrt að vera unglingur, eða dýrt að eiga ungling. Og það eru ekki bara foreldrar sem eru að reyna að hafa áhrif á hvernig unglingarnir eyða tíma sínum og peningum, heldur einnig fjársterkir aðilar, sem hafa mikilla hagsmuna að gæta. Ætli þeir, sem með ýmsum hætti skipta sér þannig af aðstæðum á heimilum, geri sér grein fyrir hvað þeir eru að gera? Að þeir eru með beinum hætti að blanda sér í uppeldisaðstæður á íslenskum heimilum?

Hegningar

Hegningar eru síðasta úrræðið:  þær gera barninu ljóst að það sem það hefur gert er verulega ámælivert eða mjög alvarlegt og verður ekki umborið.  Hegningar ætti aldrei að nota nema þegar aðrar leiðir, samningar, tiltal o.s.frv. hafa brugðist. Það getur hins vegar verið gott fyrir barnið að vita að þú getir gripið til slíkra úrræða og hjálpað því að skilja að það hafi farið yfir leyfileg mörk.  Lýstu því yfir fyrirfram að þú munir beita viðurlögum. Reyndu að afmarka við hvaða brotum þú munir beita þeim en ekki nota þau á tilviljunarkenndan hátt. Þannig eru meiri líkur á að unglingurinn sjái að það sem hann gerir ( t.d. koma ekki heim á umsömdum tíma án þess að láta vita ) mun hafa fyrirsjáanlegar afleiðingar.

Hegningar mega aldrei vera niðurlægjandi og það ætti aldrei að beita líkamlegum refsingum.      

Þær hegningar sem eru notadrýgstar fela í sér takmörkun á fríðindum eða réttindum frekar en að ganga á virðingu barnsins.  Það er t.d. erfitt ungling að horfa fram hjá því ef fjárráð hans eru takmörkuð, ef ekki eru keypt á hann ný föt eða hann fær ekki fjárhagslegan stuðning til ferðalaga eða skemmtana.  Útivistarbann eða hvað annað sem setur félagslífi hans skorður getur einnig verið áhrifaríkt. Þú getur bannað útivist um helgi eða hætt við að lána eldri unglingum fjölskyldubílinn, takmarkað sjónvarpsgláp o.s.frv. Kannski eru bestu viðurlögin þau sem koma einhverjum til góða en eru ekki eingöngu refsing.  Viðbótarskyldur í heimilisstörfum, að sjá um innkaup eða að slá garðinn getur átt mjög vel við.

Hver sem viðurlögin eru ættu þau að standa í ákveðinn tíma.  Það er ósanngjarnt gagnvart unglingnum og kallar á uppreisnarviðbrögð ef réttindaskerðingin er endaleg eða sett í einhvern óskilgreindan tíma.  Ekki nota innantómar hótanir og ekki setja hömlur sem næsta ógerlegt er að framfylgja eða sem eru jafn óþægilegar fyrir þig og barnið. Þú verður að vera viss um að þegar þú hegnir hafi barnið þitt gert eitthvað til að verðskulda það, en ekki vegna þess að þú ert sérstaklega pirraður eða þreytt.

Þú verður að forðast að lenda á þeirri blindgötu að beita sífellt fleiri og harðari viðurlögum gegn uppreisnargjörnum unglingi sem stöðugt reynir að finna leiðir til þess að sniðganga þau.  Það getur verið góð hugmynd að gera málin upp einu sinni í viku, t.d. á sunnudegi, þannig að unglingurinn geti byrjað þá næstu með hreinan skjöld og reyna að greina þau vandamál sem valda því að reglur eru brotnar.  Það mun einnig gefa þér möguleika á að endurtaka eða semja aftur um mörkin á viðsættanlegri hegðun þegar það er viðeigandi.  


Úr bókinni unglingsárin handbók fyrir foreldra og unglinga frá forlaginu 1996.

Hin gleymdu börn þurfa aðstoð

Uppeldisaðstæður í fjölskyldu þar sem annað eða báðir foreldrar eru drykkjusjúkir eru afar ófullkomnar. Óhófleg drykkja og eðlilegt fjölskyldulíf getur ekki farið saman. Misnotkun áfengis eyðileggur fjárhaginn og veldur áhugaleysi á að rækta náin persónuleg samkipti. Í kjölfarið fylgir sjálfelska, kæruleysi og árásarhneigð. Árekstar hljóta því að verða miklir og barn í þannig fjölskyldu upplifir mikla innri spennu og vanlíðan, en það eykur aftur líkurnar á því að það noti síðar áfengi til að draga úr kvíða.

Við svo búið má ekki standa. Þessum börnum verður að koma til hjálpar. Aðstandendur sem þekkja hvaða hætta börnum er búin vegna þessara heimilisaðstæðna verða að bregðast við, svo og vinir og kunningjar.

Kennarar og annað starfsólk skóla getur komið miklu góðu til leiðar með réttum viðbrögðum, en til þess þurfa þeir að kunna skil á hvað um er að vera.

Það er því ákaflega mikilvægt að leita hjálpar í tíma. Hana er t.d. að fá hjá AA, Al-Anon, Alateen, fjölskyldudeild SÁA og Vímulausri æsku.


Úr grein frá vímulausri æsku

Hver er ég?

Unglingurinn veltir því fyrir sér, á allt annan hátt en áður, hver hann sé og hver hann vilji verða.  Þar eru ýmsar fyrirmyndir , foreldrar, kennarar, vinur eða vinkona og svo eru allar fjarlægu fyrirmyndirnar eins og íþróttahetjur, poppstjörnur og kvikmyndastjörnur.  Framboðið á fjarlægu fyrirmyndunum er mjög mikið. Fyrir 80 árum hafði unglingurinn engar fyrirmyndir aðrar en foreldrana, sýslumannshjónin, prestshjónin og hetjur Íslendingasagnanna.  Í dag eru fyrirmyndirnar mýmargar og ótrúlega nálægar vegna fjölmiðla.

Unglingur velur sér gjarnan einhverja fyrirmynd og reynir að hegða sér í einu og öllu eins og hún, kannski í einhverjar vikur.  Svo verður hann leiður á henni og ákveður að vera einhvern veginn allt öðruvísi. Stundum finnst foreldrum þessar sveiflur öfgakenndar, en þá er ágætt að rifja upp hverjar þeirra fyrirmyndir voru.

Það getur auðvitað verið erfitt fyrir foreldrana, þegar unglingurinn þeirra skiptir um týpu oft á dag.  Við getum tekið dæmi um dreng sem hefur valið sér jákvæðan, elskulegan, amerískan dreng í sjónvarpsþætti til fyrirmynda.  Hann kveður mömmu sína með kossi eftir morgunverðinn og mamma er að sjálfsögðu hæstánægð með drenginn sinn. Svona gengur þetta ef til vill í einhverjar vikur.  En einn daginn lendir hann í útistöðum við einhvern töffarann í skólanum og þegar hann kemur heim í hádeginu er elskulegi, ameríski strákurinn horfinn og Rambó tekinn við.  Hann hreytir út úr sér einsatkvæðisorðum, skellir hurðum og er allt í einu orðinn viðskotaillur maður sem trúir á hnefaréttinn. Þrátt fyrir öll þessi umbrot nær unglingurinn ákveðnu jafnvægi.  Í flestum tilvikum er því ekkert að óttast.

Foreldrar þurfa að hafa í huga að þegar unglingi finnst hann vera að verða fullorðinn, þá fer hann að prófa sig áfram með ýmislegt sem honum finnst tilheyra fullorðinsárunum.  Umgengni hans, til dæmis við áfengi, kynlíf, skemmtanir og útivistartíma, fer að verulegu leyti eftir umgengni hinna fullorðnu við þetta sama.                

Lærið að vera góð við ykkur

Aðferðirnar sem foreldrar hafa til þess að auka áhyggjur sínar eru óteljandi.  Þau vilja fá að vita hvað er á seyði og finnst þau hafa rétt á að vita það. En jafnvel þegar foreldrar gera sér grein fyrir því að alkóhólismi er sjúkdómur þá trúa þau þeirri vitleysu að með því að krefjast upplýsinga um athafnir barna sinna séu þau að ,,skipta sér af” .  þau draga sig í hlé að hluta til, til að forðast sannleikann.

Við þessar kringumstæður eru allir foreldrar lamaðir af ótta.  Að öllum líkindum ertu búin að lesa allt um ,,hörkuna” sem þér ber að sýna barninu, hvort sem þér líkar betur eða verr, vegna þess að það er skylda þín sem foreldris.

Áhyggjur þínar eru meira og minna afskrifaðar t.d. auðvitað ertu hræddur en það fylgir því að vera foreldri.  Svo hysjaðu uppum þig og gerðu það sem rétt er fyrir barnið. Það gera allir ábyrgir foreldrar.

Manstu hvað þú varst óttaslegið nýbakað foreldri ?  hvað getur þessi hósti þýtt, afhverju koma svona útbrot ? þú last allt sem þú fannst og spurðir ráða.  Reyndu að lesa einkennalistann sem hér kemur á eftir með sama hugarfari. Þetta eru byrjunareinkenni sjúkdóms sem bæði er auðvelt er að taka á og svo ótrúlega einfalt að halda í skefjum að það er til skammar að hundsa þessi einkenni.  Sá sársauki og skelfing sem fylgir því að koma barni í meðferð eru smámunir í samanborið við gleðina sem fylgir batanum. Og barnið verður þér þakklátt þegar það hefur náð áttum. Ég veit að þú trúir þessu ekki núna. Það er slægð sjúkdómsins sem fær alla innan fjölskyldunnar til að trúa sjúkdómnum þegar hann ráðkast með foreldra og segir þeim að skipta sér ekki af þessu.

Sjúkdómurinn er að sannfæra þig um að þú munir missa barnið þitt.  Þorir þú að skoða vandlega og sjá hvaða einkenni barnið þitt hefur ?

Lestu nú, ef þú treystir þér til listann hér fyrir neðan hættu þegar þú vilt.  Lestu hann aftur þegar þú getur. Það er engin skömm að því að vera hræddur. Við þekkjum öll þennan ótta.  Hann er eðlilegur hluti áhrifanna sem alkóhólisminn hefur á fjölskylduna. Aðeins fjölskyldumeðferð innan Al-anon, í sjálfshjálpar eða sérfræðihóp, hjálpar fjölskyldumeðlimum að losna endanlega við þennan ótta.

Veki listinn þér þvílíkan ótta að þú getir ekki einu sinni litið á hann, láttu þá eftir þér að leggja hann á hilluna í bili til að lita á hann seinna.  Þetta er mjög mikilvægt enginn hefur rétt til að þvinga þig til að hugsa um eða gera eitthvað sem þú ert ekki tilbúinn til. Seinna þegar þú hefur stundað Al-anon fundi eða sjálfshjálparhóp fyrir foreldra um tíma og finnst þú vera nægilega sterkur og rólegur, lestu þá listann yrfir til þess að meta hvernig ástandið er.

Séu tvö eða fleiri af þessum einkennum til staðar mynda þau oft mynstur, það bendir að öllum líkindum til vímufíknar.  Einkennin koma fram hjá barninu/unglingnum á mismunandi vegu og oft tímabundið. Það er blekkingavefur sjúkdómsins sem fær foreldra til þess að trúa því að nú sé vandi barnsins úr sögunni, það sé endanlega stytt upp.

AA segir að alkóhólismi sé lævís, óútreiknanlegur og voldugur.  Svo hvernig getur þú vitað þegar einkennin hverfa um tíma hvort vandamálið heyri nú sögunni til?

Því miður eru tölfræðilegar staðreyndir ekki hliðhollar unglingunum.  Sjúkdómurinn getur legið niðri um skeið, unglingurinn hefur stjórn á neyslunni gengur betur í skólanum og hagar sér í alla staði mun betur.  En berjist hann fyrir rétti sínum til þess að drekka með kunningjunum t.d. um helgar þá er það oftast einkenni um áframhaldandi áfengisvandamál.  Setjum svo að þér hafi alla tíð þótt jarðaber góð og hafir aldrei átt í neinum vandræðum með að borða þau. Einn daginn verðurðu fárveikur eftir að hafa borðað hálfa skál.  Læknirinn segir að þú getir orðið svona veikur aftur ef þú borðar jarðaber oftar. Að öllum líkindum muntu með ánægju forðast jarðber þaðan í frá, nema þegar þau eru glæný og óvenju freistandi.  Að öllum líkindum mun setja að þér hroll við minninguna um hversu illa þér leið síðast þegar þú borðaðir jarðaber og þú lætur þau vera.

Aðeins alkóhólisti berst fyrir rétti sínum til að drekka og mótmælir hástöfum að drykkjan skapi vandamál, þegar hún gerir það.  Hvers vegna er svo nauðsynlegt að berjast fyrir þessum réttindum ? unglingurinn skilur það ekki en það er hungur líkamans í vímuna sem ræður ferðinni.  Sjúkdómurinn segir barninu þínu að kveða þig í kútinn auðmýkja þig og rugla þig eins mikið í ríminu og hægt er svo að alkóhólistinn geti haldið áfram að drekka.  Alkóhólismi er enginn mælikvarði á hæfni þíns sem foreldris. Unglingur með drykkjuvandamál segir þér ekki að ,,hætta að skipta þér af” vegna þess að þú sért slæmt foreldri, heldur er það alkóhólisminn sem segir það

Njóttu lífsins

Viltu vita hvernig átt þú að njóta lífsins, með því að yfirstíga hindrandi skoðanir? Skoðanir okkar eða það sem við trúum mótar það hver við erum. Það sem við trúum innra með okkur, verður það sem við sköpum í kringum okkur.  Það er stundum sagt að okkar innri hugarheimur skapi þann ytri.

Ef við höfum skoðanir og trú sem styður við okkur, sem eru í samræmi við drauma okkar og þrár, þá eru meiri líkur á því að okkur muni hljótast  það sem við viljum, án mikillar fyrirhafnar.

Hins vegar ef skoðanir okkar og það sem við trúum er ekki að styðja okkur, er í andstöðu við markmið okkar og drauma, þá erum við með hindrandi hugsanir og trú.  Við takmörkum því möguleika okkar og skemmum fyrir okkur, þannig að líkurnar á að okkur hljótist það sem við sækjumst eftir minnka til muna. Eins og velgengnin sé aldrei okkar megin.

Við takmörkum möguleika okkar á að fá það sem við þráum og getum fengið.

Ef þig langar til að njóta lífsins og lifa því lífi sem þig dreymir um, þá verður þú að greina þessar takmarkandi hugsanir og skoðanir sem eru í undirmeðvitundinni, og breyta þeim yfir í  hugsanir og skoðanir sem eru að styðja við þig og það sem þig dreymir um.

Lausnin er að leggja af stað, stíga fyrstu skrefin í átt til þess sem þig dreymir um.

Til að byrja með er gott að taka eitthvað sérstakt fyrir og greina hvaða gildi það eru sem eru svona takmarkandi í undirmeðvitundinni í sambandi við þetta sérstaka atriði. Vertu opinn og hreinskilinn og taktu síðan áskorun um að breyta þeim einni af annarri.

Stattu á móti þessum sjálfvirku neikvæðu skoðunum og hugsunum.

Tökum sem dæmi með kaffidrykkju; hvað gerist ef þú færð ekki fyrsta kaffibollann á morgnana?  Hvað myndi gerast ef þú vaknar á morgun og í stað þess að rjúka beint í kaffivélina og fá sér einn sterkan kaffibolla, þá fengir þú þér stórt glas af ferskum ávaxtasafa?

Hvernig heldur þú að það myndi hafa áhrif á daginn?

Myndir þú vera taugastrekktur og skjálfa? Myndir þú segja:  „O ég þarf alveg nauðsynlega þennan kaffibolla til að geta unnið. Ég verð að fá morgunkaffið! Ég einfaldlega get ekki byrjað daginn án þess að fá það."

Hvað hefur gerst hér, þú ert búinn að búa þér til ávana, þú trúir að þú verðir að fá þennan kaffibolla á morgnana til að geta byrjað daginn í réttum gír; með koffín sem orkugjafa.

Þú skapaðir þennan ávana að verða að fá þér kaffibolla á morgnana. Þú telur þér trú um að þú verðir að fá hann. Þú trúir í alvöru að þú verðir að fá hann til að geta vaknað og byrjað daginn.

Til þess að geta notið lífsins á þínum forsendum, þá verður þú að byrja með því að breyta þessari rútínu, þessum ávana.  Þú verður að breyta undirmeðvitundinni á þessum hindrandi skoðunum varðandi kaffi.

 Í reynd þá þarftu ekki á þessum kaffibolla að halda til að hlaða batteríin fyrir daginn. Þú heldur að þú þurfir það, þannig að þú ert búinn að breyta þessari ranghugmynd yfir í trú.

Með því að breyta skoðunum þínum, því sem þú trúir, þá getur þú í raun breytt raunveruleikanum, lífinu þínu.

Taktu frá tíma til að skoða þessar innri skoðanir sem eru fastar í undirmeðvitundinni og spurðu sjálfan þig þessarar tveggja spurninga: „ Hvers vegna trúi ég þessu?" og síðan: „ Styður þessi trú mig og hjálpar hún mér til þess að fá það sem mig langar í lífinu?"

Nú hefur þú tækifæri á því að breyta þessum sjálfvirku neikvæðu hugsunum. Byrjaðu með því að hætta neikvæðri hugsun.

Það er stór áfangi í því að breyta skoðunum og trú frá takmarkandi og hindrandi hugsunum í uppbyggjandi og styðjandi hugsanir.


Grein eftir Sigurð Erlingsson

Svefnskuld hefur slæm áhrif á líf barna og unglinga

Þegar börn og unglingar eru með sjónvarp og/eða tölvur inni í svefnherbergjum sínum – eins og algengt er orðið hér á Íslandi - þá leiðir það til þess að þau eru vakandi langt fram eftir nóttu. Í viðbót eru krakkar að senda hvert öðru sms-skilaboð. En börn og unglingar þurfa mikinn svefn og þó unglingar finni ekki eins mikið fyrir þreytu og yngri börn, þá þurfa þau að sofa frá 9-10 klst. á sólarhring. Sofi þeir ítrekað of lítið þá fer að safnast upp svefnskuld, sem hefur margvísleg óæskileg áhrif á heilsu og líðan unglingsins. Elín nefndi í þessu samhengi að það hafi sýnt sig að sá svefn sem við fáum fyrir miðnætti veitir mesta hvíld. Hvað varðar afleiðingar af slíkri svefnskuld, þá sé farið að ræða hvort ekki megi rekja ástæðu aukningar á þunglyndi meðal ungmenna m.a. til svefnskorts. Víða í Bandaríkjunum er t.d. farið að bregðast við þessu með því að seinka skólabyrjun á morgnana og hefur það gefið góða raun.
Elín ræddi einnig um áhrif tölvuleikja á svefn og draumfarir barna, þ.e. að börn sem hrærast í ofbeldisleikjum geti haft erfiðar draumfarir. Í því sambandi nefndi hún vanþekkingu foreldra á tölvuleikjum og hversu brýnt það væri að þeir kynntu sér þá leiki sem börn þeirra væru í. Það væri t.d. mjög algengt að foreldrar læsu ekki merkingar á tölvuleikjunum. Leikirnir væru merktir með tilliti til aldurs, t.d. þýddi 7+ að leikurinn væri ekki ætlaður börnum yngri en 7 ára vegna þess ofbeldis eða annars efnis sem í honum væri.

Unglingurinn – lífsstíll og forvarnir


Árið 1997 átti Menntamálaráðuneytið frumkvæði að því að byggja upp forvarnastarf innan framhaldsskóla landsins og var ég fengin til að stýra verkefninu. Það er hluti af stærra verkefni sem ráðuneytið kom á fót í kjölfar samþykktar ríkisstjórnar frá desember 1996 í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum. Í því var lögð áhersla á að efla forvarnir sem beinast að einstaklingum sem talist geta í hættu gagnvart notkun fíkniefna, áfengis og tóbaks og að efla meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem eru í vanda stödd. Með forvörnum er átt við víðustu merkingu þess orðs og lögð skyldi áhersla á uppbyggjandi lífsstíl, aukna sjálfsvirðingu, sterka framtíðarsýn, heilbrigt líferni, vandað val á félagsskap, kjark til að velja og styrk til að hafna vímugjöfum.

Forvarnir gegn sjálfseyðandi lífsstíl
Það er mikilvægt að skilgreina forvarnir í víðri merkingu þegar verið er að tala um forvarnastarf gagnvart unglingum. Þá á ég við forvarnir gegn sjálfseyðandi lífsstíl. Hluti af því er áhersla á vímuvarnir og reykingavarnir. Það þarf þó ekki síður að leggja áherslu á að efla með unglingunum heilbrigðan lífsstíl, sjálfsvirðingu, ábyrgðartilfinningu, markmiðssetningu og merkingarbært líf sem er þess virði að lifa því og vanda sig við það!

Því seinna – því betra
Forvarnir koma þannig inn á ýmsa þætti í lífi unglinga. Einn þáttur forvarna er að reyna að draga úr og seinka því að nemendurnir byrji að reykja, drekka og nota önnur vímuefni. Þetta er mjög mikilvægt þar sem rannsóknir sýna að sá sem byrjar að drekka áfengi 14 ára er mun líklegri til að lenda í vanda varðandi sína neyslu en sá sem byrjar að drekka 18 ára eða eldri. Aldurinn 16-20 ára er mikill mótunaraldur og varðandi farsæld hvers einstaklings er lykilatriði að hann nái að taka út andlegan-, félagslegan- og líkamlegan þroska á þessum tíma, án þess að vera meira og minna undir áhrifum vímugjafa.Sjálfstæði til að velja
Það þarf einnig að leggja áherslu á að unglingarnir hafi val varðandi þessi mál og að það sé alls ekkert sjálfgefið að allir velji að neyta vímugjafa í einhverri mynd. Sá sem er sterkur persónuleiki og sjálfstæður félagslega getur sagt: NEI, TAKK! Sá unglingur má virkilega
vera stoltur af afstöðu sinni."

Líðan í skóla
Skólaganga er stór hluti af lífi unglings og það er mikilvægt að honum líði vel í skólanum bæði varðandi nám og félagstengsl. Það er nauðsynlegt að skólarnir gefi skýr skilaboð til nemendahópsins, foreldra og starfsmanna um hvaða hegðun leyfist innan skólans og hvaða hegðun sé ekki samþykkt. Allir framhaldsskólar hafa forvarnastefnu og þeir sýna ungdómnum í dag mikinn áhuga og láta sig varða velferð nemendanna.

Forvarnafulltrúarnir eru starfandi innan nær allra framhaldsskóla. Auk þess að stýra forvarnastarfinu, eru þeir í sambandi við nemendur og foreldra t.d. þegar nemandi er að reyna að losna úr viðjum slæmra ávana. Foreldrar ættu ekki að hika við að hafa samband við starfsmenn skólans ef þeir vilja ræða eitthvað sem snertir þeirra ungling.

Heilbrigt félagslíf er mikilvægt
Hverjum einstaklingi er nauðsyn að stunda heilbrigt félagslíf. Jafningjahópurinn skiptir unglinginn miklu máli og í honum skapast fyrirmyndir og þarf lærir hann hvað er viðurkennt af jafnöldrum hans og hvað ekki. Það er mikilvægt að foreldrar fylgist með hverja unglingurinn umgengst, hvernig honum og félögum hans vegnar og hvað hann er að gera með jafnöldrum sínum. Það er þannig ákaflega mikilvægt að fylgjast vel með unglingnum sínum og því hvernig honum vegnar í þeim verkefnum sem hann er að takast á við, þ.e. sem nemanda, sem jafningja, í ástundum áhugamála o.fl. Þeir unglingar sem eiga erfitt með að fóta sig í félagslífinu eða náminu eru yfirleitt í ákveðinni hættu umfram aðra.

Hverjum einstaklingi er nauðsynlegt að vinna að verkefnum sem eru við hans hæfi og bera sýnilegan árangur.

Félagsleg – og tilfinningaleg færni
Það er mikilvægt að hlúa að og efla unglinga í félagslegu og tilfinningalegu tilliti. Bæði foreldrar og skólakerfið þurfa að taka þátt í þessu verkefni. Þetta er mikilvæg færni fyrir ungling hvort heldur litið er til komandi starfsferils hans eða einstaklingsþroska. Jafnvel við
mannaráðningar hjá fyrirtækum er nú lögð mikil áhersla á þætti eins og samskiptahæfni, sjálfstæði, jákvæðni og sveigjanleika til að takast á við ný verkefni. Menntun hefur alltaf mikið forvarnargildi.

Forvarnir gagnvart allri sjálfseyðandi hegðun þurfa að vera hluti af námi allra unglinga á Íslandi.

Hamingjusamt líf
Ef við skoðum orðið "hamingjusamur" - merkir það að vera samur hami sínum - vera í eigin ham - að vera með sjálfum sér. Að vera hamslaus er þá að vera ekki með sjálfum sér. Sá unglingur sem leitar í vímu er ekki í eigin ham - hann glatar sjálfum sér. Það hljóta að vera réttindi unglings - sem lifir í heimi sem hinir fullorðnu stjórna - að fá stuðning og leiðsögn til að lifa í eigin ham.

Allir þurfa að vera góðir í einhverju - allir þurfa að hafa verðug viðfangsefni að takast á við til að geta lifað sem stoltir einstaklingar með góða sjálfsvirðingu og dómgreind. Ekkert er manninum jafn ógnvekjandi og merkingarleysið, mest þá merkingarlaust eigið líf segir
tilvistarheimspekin.

Dómgreindin eykur hæfni einstaklingsins til að takast á við aðstæður; lán og ólán - og velja milli mismunandi möguleika. Nokkur sjálfþekking er nauðsyn þroskaðrar dómgreindar.

Dómgreindin hleður ekki hlutum utan á fólk eins og öskupokum. Einstaklingur með góða dómgreind velur.

Hann veit hver hann er og er í stakk búinn til að meta hvað hæfir þeim manni.


Mentamálaráðuneytið unnið af Ingibjörgu Þórhallsdóttir

Vitsmunaþroski unglingsáranna

Það verða einnig breytingar á vitsmunaþroska á unglingsárunum. Þá náum við hátindi námsþroska okkar. Að auki kemur hæfni til rökhugsunar í stað þeirrar hlutbundnu hugsanir sem einkennir börn. Börn eiga mjög erfitt með að hugsa sér eitthvað annað en það sem þau hafa upplifað eða þreifað á. Unglingarnir fá hæfni til sérstakrar hugsunar, þeir nota flóknari hugtök, geta ímyndað sér aðrar aðstæður en þeir hafa upplifað og geta fundið fleiri en eina lausn á hverjum vanda. Þeir geta sem sagt ímyndað sér að heimurinn gæti verið öðruvísi en hann er, þeir sjálfir, foreldrarnir, skólinn og annað. Þetta er skýring á þeirri gagnrýni á umhverfið, sem unglingar sýna, þeirri uppreisn og þeim þunglyndistímabilum, sem sumir þeirra ganga í gegnum. Þessi þroskamerki líta fullorðnir hins vegar gjarnan á sem sjúkdómseinkenni hinnar hræðilegu unglingaveiki. Fullorðnir hafa tilhneigingu til að leggja neikvæða merkingu í þroskabreytingar unglingsáranna.

Hafa ber í huga

  • foreldrar bera ábyrgð þar til barnið er orðið 18 ára.

  • Unglingur þarf að meðaltali minnst níu stunda svefn á sólarhring.  Syfjaðir og þreyttir nemendur eiga erfitt með að einbeita sér við nám

  • Foreldrar ættu að þekkja vini barna sinna og foreldra þeirra, vita hvar barnið er þegar það er að heiman.

  • Vanrækt og afskipt börn og börnum sem líður illa eru líklegri fórnarlömb fíkniefnasala en önnur.  Foreldrarnir eru oftast lykillinn að lausn vandamála sem upp koma

  • Góð fyrirmynd er gulls ígildi.  Ert þú góð fyrirmynd á þínu heimili?  Ert þú tilbúinn að gefa barninu þínu tíma til að stuðla að því að það eignist góðar minningar um æskuárin?