Mótlæti 

Mótlæti er hlutur í lífi okkar sem kemur og er einn af þessum þáttum sem við ráðum ekki mikið við. Það hefur verið talað um það að lífið sé haugur af krísum og ég held að það sé nú þetta sem kemur með misjöfnu millibili. Þegar mótlætið byrjar að birtast í lífi okkar er stundum eins og það ætli engann endi að taka. Það er engu líkara en að þetta komi í svona tilboðspökkum, tíu krísur í pakka. Ekki er alltaf auðvelt að bregðast við þessu og stundum upplifum við þetta sem mikið ranglæti. Okkur finnst það vera ósanngjarnt og bregðumst við með þannig hugarástandi að það bara versnar, það lagast ekki. 

Eina leiðin til að takast á við mótlæti, er fyrst og síðast að styrkja sjálfan sig og ná tökum á sinni andlegu líðan og tilfinningaástandi. Það er ekki þannig að það er ekki hægt að smeygja sér framhjá þessu mótlæti. Það er ekki hægt að verða flinkur í því að smeygja sér framhjá mótlæti en hægt er að takast á við það og fara í gegnum það og þá fyrst verður það að reynslu sem að nýtist okkur og styrkir okkur. Mótlæti styrkir okkur en veikir okkur ekki. 

Við erum samt svo sem ekki himinlifandi þegar við fáum mikið af mótlæti og við erum sjaldnast glöð með það þegar það birtist í einni eða annarri mynd. En það er gott að hugsa það þannig að mótlæti færir okkur fjær veraldlegum ávinningum og nær því góða og fallega í lífinu og það er eitthvað sem er gott að velta fyrir sér og hugsa um. 

Ég held það sé gott að hugsa um það “hvað hef ég farið í gegnum mikið af mótlæti í lífinu”. Ég held það sé einnig ágætt að breyta til næst þegar þú hittir vini þína og prófa einu sinni að skiptast á hörmungasögum í staðinn fyrir að vera alltaf að horfa á hvað þú hefur eignast eða hvað þú hefur gert sjálfum þér til framdráttar. Þá færðu kannski aðra sýn á lífið og tilveruna og það er nú kannski grunnurinn af því að láta sér líða vel og eiga góðan dag. 

Ég held það sé ágætt snemma morguns að horfa á það að líklega bíður þín mikið af mótlæti í deginum. Ég vona að þér gangi vel með mótlætið þitt í dag og líttu á það jákvæðari augun en þú hefur kannski gert og sjáðu hvort það gengur ekki betur að fara í gegnum það. 

Gangi þér vel í dag

Birt með leyfi höfundar : Kári Eyþórsson - ráðgjafi

Kári Eyþórss.jpg

Greinin birtist á heimasíðu höfundar : karieythors.is