12 spor

Skilningslyklar 12 sporanna
Þríþætt viðfangsefni sporanna

 

Spor 1-2-3 uppgjafarsporin ( Give it up! )

Afneitun hætt. Að gefa frá sér. 


Spor 4-5-6-7-8-9 hreinsunarsporin ( Clean it up! )

Leiðrétting sjálfsins og misgjörðanna.


Spor 10-11-12 upplifunarsporin ( Live it up! )

Lífsins notið með því að halda árangrinum við.


Hugrekki til að breytast

Sporavinna

Eftirfarandi þrískipting sporanna 12, sem og ábendingar varðandi sporin, eru einungis til hjálpar nýliðum til að nálgast persónulega sporavinnu sína svo þeir mikli síður fyrir sér þetta verkefni.  Að sjálfsögðu er hægt að líta á sporin frá ótal mörgum hliðum.  Umfjöllunin og ábendingarnar hér eru því einungis ein leið til að nálgast þessa vinnu.  Vert er einnig að benda á að sporin 12 er fyrst og fremst andlegt prógramm, en um leið og það er heiðarleika og framkvæmdarprógramm.  Nýliði sem er að vinna sporin í fyrsta sinn í lífi sínu, leitar sér gjarnan sérstaks spora-trúnaðarmanns, eða jafnvel spora-trúnaðarmanna, til leiðsagnar við sporavinnu sína.  Síðar getur hann, ef hann vill, leitað hverskonar trúnaðarmanna fyrir hverskyns málefni og tilfinningar.

Gangi þér vel !     


Spor 1-3 uppgjafarsporin þrjú
Give it up – Að gefa frá sér


Fyrsta sporið:

Tvíþætt spor viðurkenningar og uppgjafar sjúkdómsgreiningin gerð af alkóhólistanum

sjálfum

a )

Alkóhólistinn þarf að verða fullkomlega meðvitaður um þá staðreynd að hann er

vanmáttugur gagnvart áfenginu og öllum efnum sem eru taugaörvandi eða

taugahemlandi, hvort sem þau eru ofan í honum sjálfum eða öðrum. Hann þarf

ennfremur að verða fullkomlega meðvitaður um vanmátt sinn gagnvart hinu svokallaða

alkóhólíska hugarfari í öðrum. Hann er hinsvegar ekki vanmáttugur gagnvart sínu eigin

alkóhólíska hugarfari. Hann getur farið með sitt eigið hugarfar til æðri máttar, á AA fund

og til trúnaðarmanns, og leitast við með hjálp að breyta því.

b)

Við alkóhólistar verðum að verða fullkomlega meðvitaður um þá staðreynd að við erum

ekki bara stjórnlausir meðan á drykkjunni stendur, heldur í fráhvörfunum og

timburmönnunum sem á eftir fylgja. Þar sem það tekur boðefnabúskapinn í taugakerfinu

langan tíma að komast í jafnvægi aftur, þá þýðir þetta að við höfum laka stjórn á lífi

okkar, alla daga á milli drykkju. Við erum óhæf um að stjórna kringumstæðum lífs

okkar, beint eða óbeint. Í lífi án áfengis höldum við áfram að vera stjórnlausir að því

leyti að við komum aldrei til með að geta stjórnað lífi okkar án Æðri máttar, AA funda,

trúnaðarmanns og leiðsagnar Reynslusporanna. Reynum við að stjórna lífi okkar án

þessara þátta eru allar líkur á því að við stýrum okkur í drykkju á ný að við bíðum

varanlegan ósigur fyrir Bakkusi.


Annað sporið:

Andlegur undirbúningur þar sem hinn glataði sonur/dóttir fer að trúa að hann/hún

komist aftur til föðurhúsanna.

Þetta er andlegur undirbúningur þriðja sporsins. Þriðja sporið er viðurkenning þess að

við vorum komin með rangan Guð; Bakkus eða áfengið. Við þurftum að viðurkenna að

við vorum sjálf að leika Guð. Að við vorum búin að missa vitið gagnvart áfenginu og við

orðnir þrælar þess. Við verðum nú að fara að snúa okkur til skaparans; hins skapandi

raunveruleika, eða einhverrar persónulegrar trúar annarrar en á Bakkus. Við verðum að

fara að öðlast einhverjar hugmyndir um hugtakið Æðri máttur. Hér er fyrst og fremst átt

við stjórnunarvilja, máttugri hinum persónulega egó-vilja okkar, en hann er brotinn

gagnvart áfenginu það sem eftir er ævinnar.


Þriðja sporið:

Andleg framkvæmd þar sem hinn glataði sonur/dóttir tekur ákvörðun um að láta leiða

sig aftur til föðurhúsanna.

Þriðja sporið er andleg framkvæmd sem fólgin er í því að læra að leggja líf sitt og vilja

daglega í hendur Æðri mætti. Hér minnumst við þess að Bakkus hefur stjórnað vilja

okkar og lífi daglega fram til þessa. Leiðin til að komast inn í þetta spor liggur að mestu

leyti í gegnum hreinsunarsporin, 4-9. Síðan er lifað í þremur síðustu sporunum, eða 10,

11, og 12, þar sem líf okkar lýtur daglega leiðsagnar Æðri máttar. Trúarþroski byrjar

oftast í blindni og þroskast í gegnum vaxandi skilning inn í trúarvissu. Alkóhólistinn

þróast frá því að lifa daglega í hugsunum um vandamál lífs míns, í að lifa í hugsunum um

lausnirnar á vandamálunum. Í fyrstu er hér um hugsunartækni að ræða, þar til við höfum

öðlast næg innsæis-vitundartengsl við Æðri mátt.


Fyrstu þrjú sporin mega skoðast sem:

Sjúkdómsgreining,

Skilgreining lausnarinnar,

Aðferðafræði lausnarinnar


Spor 4-9  Upphreinsunarsporin sex
Clean it up – hreinsaðu upp


Fjórða sporið:

Andlegur undirbúningur hinna tveggja samvisku/ könnunarspora. 

Þetta er andlegur undirbúningur til hreinsunar siðferðisvitundarinnar.  Hér er um að ræða þá staðreynd að siðgæði okkar er orðið tvöfalt.  Eitt fyrir okkur sjálf, annað fyrir náungann.  Hér skoðum við fortíð okkar til að sjá betur hvaða siðferðislögmál hafa verið ráðandi í samskiptum okkar við meðbræður okkar.  Hér er ekki átt við að fara að velta sér upp úr fortíðinni eða leita að sökudólgum eða orsökum drykkjunnar.  Í sjálfu sér skipta atburðirnir minna máli.  Það sem skiptir mestu máli eru hugarfarslegar ástæður eða þau viðhorf sem liggja á baki gjörðunum.

Fimmta sporið:

Andleg framkvæmd hinna tveggja samvisku/ könnunarspora.

Þetta er andleg/ verkleg framkvæmd sem er fólgin í því að viðurkenna fyrir annari manneskju og ræða við hana niðurstöður okkar úr 4. sporinu.  Þessi manneskja verður þá vitni Æðri máttar að einlægni okkar.  Fram kemur nokkur mismunur á ensku útgáfu fimmta sporsins og íslensku þýðingunni, en í frumútgáfunni segir;  Admitted to God, to our selves and another human being, the exact nature of our wrongs.  Hér er sérstaklega vert að benda á orðin the exact nature of our wrongs.  Í þýðingunni er þetta haft;  misgjörðir okkar, en rétt þýðing er hins nákvæma eðlis misgjörða okkar.  Hér er því oftast um að ræða að skoða hið tvöfalda siðgæði okkar í misgjörðunum, ekki svo mikið gjörðirnar sjálfar.

Sjötta sporið:

Andlegur undirbúningur hinna tveggja hreinsunarspora.

Vinnan í fjórða og fimmta sporinu er nánast gagnslaust án framhalds í gegnum þetta spor og það næsta.  Þetta er andlegur undirbúningur til að verða hæfur um að leita til Æðri máttar með persónuleikagalla og bresti þá sem fram komu í fjórða og fimmta sporinu.  Þessir gallar og brestir eru ríkjandi í hvötum og tilfinningum og hafa komið fram í gegnum hegðun okkar.  Ekki er hægt að biðja um að eitthvað sé tekið frá okkur sem við erum meðvituð um.  Þetta er unnið að miklu leyti í gegnum viðræður við AA félaga eða trúnaðarmann.  Einnig er undirbúningur þessi gjarnan í gegnum yogatækni og djúpslökun, en best er að menn séu á einhverskonar bleiku skýi til að hafa næga auðmýkt og jákvæðni til að ná árangri í þessum andlega undirbúningi undir sjöunda sporið.

Sjöunda sporið:

Andleg framkvæmd hreinsunarsporanna tveggja.

Andleg framkvæmd er að mestu unnin í gegnum djúpslökun og einlæga bæn.  Tilgangurinn með bæninni er að kalla fram – í gegnum Æðri mátt – þær andlegu breytingar sem við nefnum andlega vakningu.  Þetta eru þær breytingar sem dr. William D. Silkworth læknir talar um í yfirlýsingu læknisins á blaðsíðu 19 í AA bókinni.  Þær eru þýðingarmestu breytingarnar sem fram koma í lífi alkóhólistans og lýsir hann þessu í því að alkóhólistinn breytist frá því að vera skjálfandi,  vonlaus, taugaveiklaður aumingi, og í það að rísa úr öskutónni sem upplitsdjarfur, ánægður og æðrulaus einstaklingur.

Áttunda sporið:

Andlegur undirbúningur viðgerðarsporanna tveggja.

Andlegur undirbúningur krefst heiðarleika gagnvart sjálfum sér og getur þarfnast nokkurs tíma og upprifjunar ef ekki hefur verið gagnger skrá um misgjörðir í tengslum við fjórða sporið.  Hér er um bæði andlegan og efnalegan skaða að ræða, sem getur þurft að leiðrétta, bæði gagnvart einstaklingnum og samfélaginu, og er um að skjalfesta skoðun fortíðar að ræða án þess að velta sér upp úr henni.  Í sporavinnu þessari kann að koma fram að í tilfellum þeim þar sem um fjárhagsskaða er að ræða, þurfa menn að vera reiðubúnir að bæta hann.  Séu menn ekki í efnalegri aðstöðu til þess, verða þeir eigi síður að viðurkenna ábyrgð sína.

Níunda sporið:

Andleg framkvæmd viðgerðasporanna tveggja.

Andleg og jafnvel verkleg framkvæmd.  Hér er nauðsynlegt að hafa unnið sporin á undan rækilega áður en til er tekið við þetta spor, þannig að viðkomandi hafi öðlast það hugarfar sem þarf til að framkvæma þetta í auðmýkt.  Hér þarf oft kjark og aðgát.  Hér þurfum við að láta Æðri mátt vinna í gegnum okkur.  Minnstu þess að þetta er hið svokallaða viðgerðarspor og í því erum við um leið að gera við okkar eigin samvisku.  Þessi sporavinna getur í sumum tilfellum staðið yfir árum saman.  Stundum er það í gegnum þessa vinnu að alkóhólistinn öðlast hvað mestan sálarfrið, æðruleysi og innri styrk.

Þegar við höfum unnið fyrstu níu sporin munu loforðin tólf, sem AA prógrammið gefur okkur, fara að rætast í lífi okkar.  Við munum uppskera ró hugans sem er grundvöllur lífshamingju allra manna.

 

 Spor 10-12 Viðhaldssporin þrjú
Live it up – upplifðu það


 

Tíunda sporið:

Tvíþætt viðhaldsspor siðferðis og samvisku.

a)  andlegt sjálfseftirlit með hjálp raddar samviskunnar sem hlustað er eftir á AA fundum, í hugleiðslu og með speglun trúnaðarmanns.  Sjálfsskoðun í einrúmi er alkóhólistanum hættuleg þar sem hún býður sjálfsblekkingunni heim.  Munið að það er fyrst og fremst hinir sjálfsspeglandi eiginleikar meðvitundar okkar sem urðu fyrir barðinu á Bakkusi með þeim afleiðingum að við fórum að lifa tvöföldu lífi, öðru fólki fremur.

Almennt eru menn með helminginn af heilanum í því ástandi að þeir vita ekki hvað þar er um að vera.  Það er af þessu sem þetta vitundarsvið er kallað undirmeðvitund.  Virkir alkóhólistar og þeir sem eru að koma út úr neyslunni, eru almennt með mjög stórt slíkt svið, en það orsakar aftur minnisleysi og lélega tengingargetu.  Í bataþróuninni léttir þessu og er það því fyrir alkóhólista afar þýðingarmikið að vera vakandi gagnvart því sem er að gerast í undirvitund hans, en því segja þeir stundum hver við annan:  Hvernig heldur þú að þú hafir það ?  Fremur en að segja Hvernig hefur þú það ?

b) verkleg, hiklaus og umsvifalaus leiðrétting misgjörða og mistaka okkar gagnvart meðbræðrum okkar.  Eitt það hættulegasta fyrir alkóhólistann er frestun þess að leiðrétta sjálfan sig gagnvart náunganum.  Í tengslum við framkvæmd þessa spors getum við þurft að leita mikið til Æðri máttar í gegnum næsta spor.  Að ganga um með slæma samvisku, sem og að ýta á undan sér leiðréttingum, býður heim óstöðugaleika í undirvitundinni.

 

Ellefta sporið:

Tvíþætt viðhaldsspor guðsvitundar, leiðsagnar og trúarstyrks. 

a) andleg leit til raunveruleika okkar Æðri máttar, sem við skynjum að veitir okkur kærleiksleiðsögn í lífinu.  Þessi raunveruleiki er í tenglum við vitund okkar og getur veitt innsæi í líf okkar.  Þetta er því Guð samkvæmt skilningi okkar á honum.  Guð eins og við erum hverju sinni hæf um að skilja og upplifa það hugtak.  Okkur er nauðsynlegt að iðka þetta daglega og flestir AA félagar gera það.  Um þetta má segja að þegar maðurinn biður, talar maðurinn – Guð hlustar.  Í ellefta sporinu er einnig fólgin dulræn aðferð til að finna svör við persónulegum vandamálum og lausnir á þeim.  Þegar beðið er um svör, koma þau sjaldan strax fram og oft þarf nokkurn tíma þar til þau birtast í vitundinni.

b) andleg iðkun þar sem leitað er ró hugans og hugað að innri vitund, rödd innsæisins, sem kemur frá okkar Æðri mætti.  Við iðkun hugleiðslu eru bæði heilhvelin stillt saman og eru notaðar til þess margar mismunandi aðferðir, eins og að kyrja eða að endurtaka í sífellu sömu bænina, eða setninguna í huganum.  Flestir iðka þetta daglega.  Styrkur og kjarkur veitir vissu um að allt muni fara vel.  Hér á við að segja að maðurinn hugleiðir, þá talar Guð – maðurinn hlustar.  Þegar leitað er lausna á vandamálum, þá koma þau yfirleitt ekki fram nema í hljóðum og kyrrum huga.

 

Tólfta sporið:

Þríþætt viðhaldsspor lífs og lífsgleði.

a) þegar alkóhólistinn er kominn inn í batann í gegnum AA sporin, verður hann fyrst og fremst andleg vera.  Hann fer að skilja og skynja merkingu orðanna:  við fundum að sá árangur sem náðist með hjálp reynslusporanna, var andleg vakning...

b) stærsta framkvæmd þessa spors er virk þátttaka í AA starfinu.  Eftir að alkóhólistinn fer að öðlast styrk og stöðugleika í tilfinninga lífi sínu, er hann tilbúinn að fara í 12. spors vitjanir.   

c) alkóhólistinn lifir nú í áframhaldandi vitundarsambandi við Æðri mátt, sem skapast hefur í gegnum vinnu hans í AA sporunum og sókn AA funda.  Hér eftir stjórnast líf hans af þessu vitundarsambandi, með því að hann er að fylgja þessum meginreglum í lífi sínu og starfi.  Þetta mun jafnframt gera alkóhólistanum kleift að lifa lífi sínu án þess að fá löngun til að menga heila sinn með hverskonar kemískum efnum, og um leið öðlast vilja til að hjálpa öðrum til slíks.


Samantekt okkar á sporavinnunni.

Margir þeirra sem hafa verið áratugum saman í AA samtökunum halda því fram að það að verða edrú sé ekki annað en að fara úr fyrsta sporinu í það þriðja.  Þeir ganga jafnvel langt að segja að þetta sé grundvallaratriði, bæði AA bókarinnar sem og spora-/Erfðavenjubókarinnar.  Öll skrif um bata frá alkóhólismanum fjalli í raun um þetta.  Margir trúa því að fundirnir séu nóg og þeir þurfi engan Æðri mátt.  Við vitnum í söguna um manninn sem sagði ég þarf ekki á sólarljósinu að halda;  ég get látið tunglskinið duga mér og var ekki meðvitaður um að tunglskinið er ekki annað endurvarp sólarljóssins.  Hér er átt við að þeir, sem segjast ekki trúa og eru edrú á fundarsamkenndinni einni saman, fá í raun styrkinn til að vera allsgáðir frá Æðri mætti, í gegnum þá sem trúa og eru á fundinum. – lokarökin eru þau að hið eina boðorð sem meistarinn kom með, sé í raun innihald alls boðskapar Gamla testamentisins og Nýja testamentisins:  Elska skaltu Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu, af allri sálu þinni, af öllum mætti þínum og af öllum huga þínum og náungan eins og sjálfan þig.     


Efni um sporin birt með leyfi úr bókinni ,,Engill afkimans”