Sjálfstraust 

Hvað er nú það? Hvernig erum við þegar við höfum sjálfstraust og hvernig erum við þegar við höfum ekki sjálfstraust. Það er kannski best að byrja að velta því fyrir sér hvernig dagurinn er þegar við finnum til okkar. Hefur þú fundið til þín undanfarna daga? Finnst þér þú hafa haft mikið sjálftraust síðustu dagana eða finnst þér sjálfstraustið vera lítið? 

Það er ágætt að skoða nokkra hluti í kringum sjálfstraust t.d. hvernig það byggist upp og hvernig það kemur. Sjálfstraust er ekki meðfætt, það er eitthvað sem við verðum að rækta upp með okkur og við þurfum að hafa töluvert mikið fyrir því. Það er ekki sjálfgefið að hafa gott sjálfstraust. Það besta sem við gerum til að öðlast sjálfstraust er að hrósa sjálfum okkur, svo að ekki sé nú talað um það að hrósa öðrum sem eru í umhverfi okkar. 

Athugum hvernig hrós virkar. Ef við hrósum öðru fólki, þá fáum við gjarnan sömu viðbrögð til baka, við fáum hrós. Tileinkaðu þér t.d. í verslunum að bjóða góðan daginn og taktu eftir því að fólk tekur undir kveðju þína og býður þér góðan dag. Þetta er svokölluð jákvæð athygli og við þurfum að fá athygli. 

Það er hins vegar mikill munur á jákvæðri og neikvæðri athygli. Jákvæð athygli veitir gríðarlega mikið sjálfstraust og með því að gefa frá sér hrós þá fáum við hrós til baka. Því hefur stundum verið haldið fram að þegar við hrósum annarri manneskju þá geti sú hætta verið til staðar að viðkomandi verði montin, þannig er það alls ekki. Það er mjög mikilvægt að fá að finna til sín því ef þú finnur ekki til þín þá líður þér ekkert sérstaklega vel. 

Það er í besta lagi að finna til sín, það er ekki það sama og mont. Þegar við erum montin þá erum við óörugg. Þegar við finnum til okkar, þá erum við örugg með okkur. Skoðaðu að morgni dags hvernig þér líður. Finn ég til mín núna eða er ég óörugg? Spurðu þig aftur og aftur sömu spurningar, er ég ekki örugglega að finna til mín núna? Taktu svo eftir því að dagurinn verður miklu betri hjá þér. 

Gangi þér vel.

Birt með leyfi höfundar : Kári Eyþórsson - ráðgjafi

Kári Eyþórss.jpg


Greinin birtist á heimasíðu höfundar : karieythors.is