Þunglyndi og ungt fólk

Þunglyndi er sjúkdómur sem verður til vegna ójafnvægis nokkurra boðefna í heilanum.  Menn geta m.a. orðið þunglyndir vegna streitu, mikils líkamlegs álags eða í tengslum við aðra sjúkdóma.  Þunglyndi kemur fram í ólíkum myndum og greint er á milli vægs, miðlungs og mikils þunglyndis.  Þó er það sameiginlegt með öllum stigum að sjúklingnum finnst lífið tilgangslaust og gleðisnautt og allt virðist óyfirstíganlegt.  Þunglynt fólk íhugar stundum sjálfsmorð, fær kvíðaköst, skortir sjálfsálit, hefur svefn og átraskanir, sektakennd og á erfitt með að einbeita sér. 
Hjá unglingnum eru áhrif þunglyndis svo til þau sömu og hjá fullorðnum, það einkennist oft af því að unglingurinn missir allan áhuga á öllu.  Í skólamálum er það einkennandi að unglingurinn fer að standa sig verr í tímum, lærir gjarnan ekki heima, vill ekki taka þátt í neinu og oft mætir hann ekki vel í skólann.  Þetta er oft kallað námsleiði en í mörgum tilfellum er það mistúlkun þar sem þunglyndi er ekki það sama og námsleiði, orsökin er önnur þó einkennin séu svipuð.  Flestir unglingar sem þjást af þunglyndi einangra sig frá félögum sínum.  Þeir vilja oftast ekki taka þátt í neinu sem verið er að gera og verða í raun ófélagslynd.  Áhrifin af þunglyndi versna með tímanum ef ekkert er gert.  Aðeinkenni alvarlegs þunglyndis eru þau að manneskjan hugsar neikvætt um sjálfan sig  ( hefur lágt sjálfsmat ) telur að allt sem hún gerir sé illa gert og framtíðin beri ekki neitt skemmtilegt í skaut með sér.  Sá sem þjáist af þunglyndi telur að það sé ekkert hægt að gera til að bæta úr málunum, að ekkert muni breytast, þetta leiðir til vítahrings hugsunar sem erfitt er að losna úr.Við að uppgötva þetta verða margir enn þunglyndari og á þessu stigi er hætta að manneskjan fari að hugleiða sjálfsmorð.  Að vera þunglyndur hefur áhrif á hugsun og samskipti manna þar sem einkenni þunglyndis geta verið misjöfn er oft erfitt fyrir aðra að átta sig á að unglingurinn sé þunglyndur fyrr en það er komið vel á veg.  Einhvern tímann á ævinni verða allir fyrir einhvers konar einkennum þunglyndis, svo sem depurð eða skammdegisþunglyndi, þó sem betur fer verði fæstir fyrir barðinu á krónísku þunglyndi.  Þunglyndi getur haft margar slæmar afleiðingar í för með sér, svo sem ofbeldishneigð og sjálfsmorð.  Talið er að um 60% þeirra sem framið hafa sjálfsvíg hafi verið þunglyndir.  Það að reyna að fremja sjálfsmorð er oft merki um að sá sem það gerir sé þunglyndur og sé að biðja um hjálp.  Því að lifa í þunglyndi er sársauki sem nístir mann og tærir að innan.  Margt bendir til þess að þunglyndi sé ættgengur sjúkdómur.  Það má venjulega lækna sálfræðimeðferð eða lyfjameðferð, en við alvarlegu þunglyndi hefur verið notað raflost.  Þótt meðferðir beri árangur geta þó þunglyndistímabil komið aftur og aftur.  Líkurnar á þunglyndi aukast verulega ef fól er úr þunglyndri eða brotinni fjölskyldu.  Talið er að atvik sem gerast í bernsku, svo sem kynferðislegt ofbeldi, geti valdið þeim einstaklingi sem lenti í því, þunglyndi á efri árunum, því skömm, sektakennd og lélegt sjálfsmat grúfir yfir.  Þunglyndi hefur ekki bara áhrif á þann sem er haldinn því heldur líka á alla í kringum hann.  Fjölskylda hans þarf oft að leita sér hjálpar líka.  Algeng einkenni þunglyndis er þungt skap, áhugaleysi, að finnast maður vera einskis nýtur eða byrði einhvers annars, erfiðleikar í hugsun og einbeitingu, lystarleysi, þyngdarbreytingar, svefntruflanir, eirðarleysi, sektarkennd og sjálfsvígstilraunir.   

Leitaðu ráða hjá læknum ef þú hefur áhyggjur af þínum ungling eða þér sjálfum í sambandi við þunglyndi það er styrkur ekki veikleiki!

  Þunglyndissjúklingur segir frá: "Ég varð vör við mitt alvarlegasta þunglyndi í fyrra vor eftir sambandsslit og missi fósturs.  Hann var fyrsta ástin mín og ég elska hann enn.  Fóstrið ( ég trúi því að það hafi verið strákur eftir að hafa heyrt spákonu segja það ), sem ég missti eftir tveggja mánaða meðgöngu, fyllir mig sorg og söknuði, en með því að hugsa um þá báða er ég að kvelja sjálfa mig og sökkva mér dýpra í þessa dimmu og miskunnarlausu veröld þunglyndis.  Kvöldið sem slitnaði upp úr sambandinu fór ég alveg í rusl og fannst allt hrynja, en ég reyndi eins og ég gat að hugsa ekki um að fremja sjálfsmorð. Þetta getur ást gert manni, látið mann gera eða hugsa um að gera eitthvað fáránlegt. Ég hef bæði þurft að vera á lyfjum og fara til sálfræðings. Þegar maður er þunglyndur lifir maður við stöðugan sálrænan sársauka og finnst manni enginn skilja mann .
Þannig líður mér!

Heimild: Úr bókinni Hvað er málið frá JPV útgáfu.  

Hvað þarf ungt fólk að vita um þunglyndi ?

Auðvitað líður öllum illa öðru hverju. En ef þér líður alltaf illa og það hefur áhrif á
·         einkunnir þínar og skólagöngu
·         samskipti þín við vini og fjölskyldu
·         áfengi, fíkniefni og kynlíf
·         hvernig þú stjórnar hegðun þinni
.Þá gæti vandamálið verið ÞUNGLYNDI

Góðu fréttirnar eru að þú getur fengið lækningu og liðið brátt betur. Um það bil 4% unglinga verða alvarlega þunglyndir árlega. Þunglyndi er alvarlegur sjúkdómur sem getur snert hvern sem er, líka unglinga. Þunglyndi getur haft áhrif á hugsanir þínar, tilfinningar, hegðun og heilsu.

Flestir sem þjást af þunglyndi fá hjálp með því að fara í meðferð. En meirihluti þunglyndra fær aldrei þá hjálp sem þeir þarfnast. Og þegar ekkert er að gert getur þunglyndi versnað, varað lengur og staðið í vegi fyrir þér á þessu mikilvæga skeiði lífs þíns - þegar þú ert ungur.

Hérna geturðu lesið hvort þú eða einhver sem þú þekkir þjáist af þunglyndi.
Fyrst er gott að vita að til eru tvær tegundir af þunglyndi: sorgmædda tegundin, sem kallast alvarlegt þunglyndi og svo geðhvarfasýki (eða tvískautaröskun), þar sem maður er annað hvort á útopnu og allt að því hættulega kærulaus eða þá ofboðslega niðurdreginn.

Þú ættir að fara til sérfræðings ef þú þekkir til fimm eða fleiri einkenna á sjálfum þér eða öðrum, í meira en tvær vikur og eitthvert þessara einkenna veldur svo mikilli röskun á lífi þínu að þú getur ekki haldið venjulegri áætlun:
Þegar þú ert niðurdreginn . . .
·         Þér líður illa eða grætur mikið og það bara hættir ekki.
·         Þú ert sakbitinn að ástæðulausu, þér finnst þú vonlaus, þú hefur ekkert sjálfstraust.
·         Lífið er tilgangslaust og ekkert gott virðist vera framundan. Þú ert annað hvort neikvæður eða tilfinningalaus.
·         Þig langar ekki til að gera neitt af því sem þú hafðir áður ánægju af, eins og að hlusta á tónlist, stunda íþróttir, hanga með vinunum, skemmta þér.  Það eina sem þú vilt er að er vera bara látinn í friði
·         Það er erfitt að ákveða sig og einbeita sér. Þú gleymir öllu mögulegu.
·         Þú verður oft pirraður. Smáhlutir fá þig til að missa stjórn á skapi þínu. Þú gerir of mikið úr hlutunum.
·         Svefnmynstrið breytist. Þú sefur annað hvort helmingi meira eða átt í vandræðum með að sofna. Þú vaknar snemma og getur ekki sofnað aftur.
·         Þú verður annaðhvort lystarlaus eða borðar mun meira en áður.
·         Þú ert eirðarlaus og þreyttur.
·         Þú hugsar um dauðann, eða þér líður eins og þú sért að deyja eða íhugar sjálfsvíg.
Þegar þú ert í uppsveiflu . . .
·         Þér líður eins og þú sért í sjöunda himni.
·         Þú færð hugmyndir um allt það frábæra sem þú gætir gert en það sem þú getur ekki í alvörunni framkvæmt.
·         Hugmyndirnar þjóta fram og aftur um huga þinn, Þú hoppar úr einu umræðuefni yfir í annað og þú talar mjög mikið
·         Þú ert eins manns skemmtiatriði, alls staðar þar sem þú kemur.
·         Þú gerir of mikið af villtu eða hættulegu: þú keyrir of hratt, eyðir of miklum pening, sefur of mikið hjá o.s.frv.
·         Þú ert svo "tjúnnaður" að þú þarft varla svefn.
·         Þú ert uppreisnargjarn eða argur og átt ekki samleið með neinu eða neinum, fjölskyldu, vinum eða skóla.

Talaðu við einhvern ef þú hefur áhyggjur af þunglyndi hjá sjálfum þér eða vini / vinum þínum. Það er til fólk sem getur aðstoðað, t.d:

  • einhvern í fjölskyldunni

  • heimilislækni

  • prest

  • námsráðgjafa

  • skólasálfræðing

  • félagsráðgjafa

  • einhvern fullorðinn sem þú treystir.

Ef þú veist ekki hvert þú átt að snúa þér, leitaðu þá til 118 til að fá upplýsingar.
Það geta allir orðið þunglyndir. Þunglyndi spyr ekki um aldur, kyn, kynþátt eða félagslega stöðu.
Að vera þunglyndur þýðir ekki að maður sé veiklyndur, misheppnaður, geðveikur eða þá að maður sé búinn að gefast upp. Það þýðir að maður þarf á hjálp að halda, eða meðferð.

Og það er ekkert til að skammast sín fyrir!
Hvaða meðferð er hægt að veita?

Flestum er hjálpað með samtalsmeðferð, lyfjameðferð eða hvoru tveggja.
Stutt samtalsmeðferð felur í sér að spjalla við fagmanneskju sem getur hjálpað þér til að breyta samskiptum þínum, hugsunum eða hegðun, eða öllu því sem stuðlar að þunglyndinu.
Lyf hafa verið þróuð við þunglyndi sem er alvarlegt og lamandi. Þunglyndislyf eru ekki "stuðpillur" og eru ekki heldur ávanabindandi. Stundum þarf að prófa nokkrar tegundir áður en þú finnur þá sem hentar þér best.
Meðferð hjálpar flestum til að líða betur innan fárra vikna.
Mundu að þegar vandamálin virðast of stór til að takast á við þau og þú ert búinn að vera óhamingjusöm/samur í of langan tíma þá ERTU EKKI EINN! Það er til hjálp þarna úti og þú getur beðið um hana. Ef þú þekkir einhvern sem þú heldur að sé þunglyndur, þá getur þú hjálpað. Hlustaðu og hvettu vin þinn að biðja einhvern fullorðinn um upplýsingar um meðferð. Ef vinur þinn biður ekki um hjálp, talaðu þá við einhvern fullorðinn sem þú treystir og virðir, sérstaklega ef vinur þinn hefur minnst á sjálfsvíg.

Það sem þú þarft að vita um sjálfsvíg
Flestir sem þjást af þunglyndi fremja ekki sjálfsvíg. En þunglyndi eykur engu að síður líkurnar á sjálfsvígi eða tilraunum til þess. Það er ekki satt að þeir sem tali um sjálfsvíg reyni það ekki. Sjálfsvígshugsanir, athugasemdir eða tilraunir eru ALLTAF ALVARLEGAR Ef eitthvað af þessu hendir þig eða vin þinn þá verðurðu að segja einhverjum fullorðnum frá því STRAX.

Af hverju verður fólk þunglynt?
Stundum verður fólk þunglynt eftir einhvern atburð eða skakkaföll í lífi þess, eins og skilnað, alvarleg fjárhagsvandræði, ástvinamissi, slæmt heimilislíf eða að hætta með kærustu eða kærasta.
Eins og með alla aðra sjúkdóma, þá BARA gerist þetta. Unglingar bregðast oft við sársaukanum sem þunglyndi veldur með því að koma sér í vandræði með áfengi, eiturlyfjum eða óábyrgu kynlíf, klúðra skólanum, vinum og fjölskyldu. Þetta er önnur ástæða fyrir mikilvægi þess að fá hjálp, ÁÐUR en maður lendir í öllu þessu klandri.

Þunglyndi og áfengi og önnur fíkniefni
Margir þunglyndissjúklingar, sér í lagi unglingar, lenda í vandræðum með áfengi og önnur fíkniefni. (Áfengi er líka fíkniefni.) Stundum kemur þunglyndið fyrst og maður notar eiturlyfin til að minnka sársaukann. (Þegar til lengri tíma er litið gera fíkniefnin vandann bara verri!) Stundum hefst fíkniefnanotkunin fyrst og þunglyndið kemur í framhaldi af:
·          fíkniefninu sjálfu eða
·          skorti á því eða
·          vandamálunum sem notkunin veldur
Og stundum er ekki hægt að greina hvort kom fyrst.
Aðalmálið er að finnir þú til þunglyndis og ert neytandi fíkniefna, þá er langbest fyrir þig að fá hjálp sem allra fyrst. Hvort vandamálið sem er getur aukið hitt og orsakað enn meiri vandræði eins og það að verða fíkill eða að falla í skólanum. Þú verður að vera hreinskilinn um bæði vandamálin, fyrst við sjálfan þig og síðan við einhvern sem getur hjálpað þér til að komast í meðferð. Það er eina leiðin til þess að ná bata og láta sér líða betur.
Þunglyndi er alvöru sjúkdómur og getur læknast í meðferð.

Greindu á milli staðreynda og staðleysu
Goðsögur um þunglyndi hindra fólk oft í að bregðast rétt við vandanum. Algengar rangfærslur eru:
Goðsögn: Það er eðlilegt fyri unglinga að vera í sveiflukenndu skapi. Unglingar verða ekki þunglyndir.
Staðreynd: Þunglyndi er ekki skapsveiflur og getur komið fram á öllum aldri, líka hjá unglingum.
Goðsögn: Með því að láta fullorðinn vita ef vinurinn þjáist af þunglyndi er maður að svíkja hann. Ef einhver vill hjálp verður hann sér úti um hana sjálfur.
Staðreynd: Þunglyndi lamar orku og þrek og aftrar viðkomandi frá því að verða sér úti um hjálp. Sannur vinur deilir áhyggjum sínum með fullorðnum sem getur hjálpað.
Goðsögn: Að tala um þunglyndi gerir það verra.
Staðreynd: Að tala um tilfinningar sínar við góðan vin getur oft verið fyrsta skrefið til hjálpar. Vinátta, umhyggja og stuðningur getur verið sú hvatning sem þarf til að fá hjálp.


Byggt á efni frá Geðheilbrigðisstofnun Bandaríkjanna