Sjálfsvíg og þunglyndi

Ef unglingur fer að sýna skyndileg merki um leiða, sorg, kvíða og vonleysi í meiri mæli en eðlilegt þykir ef taka má mið af hans fyrra hegðunarmynstri og persónueinkennum getur það verið merki um þunglyndi. Lystarleysi eða áhugaleysi á fæðu sem áður þótti góð samfara þyngdarminnkun er einnig talið geta verið eitt af einkennum þunglyndis. Þunglyndi gæti einnig sýnt sig í aukinni matarlyst og aukinni líkamsþyngd. Algengt er að svefnleysi, að vakna mjög snemma á morgnana eða óreglulegar svefnvenjur séu einnig einkenni af þunglyndi.

Önnur þunglyndiseinkenni geta verið félagsleg einangrun, skyndileg hegðunarbreyting, auknir hegðunarerfiðleikar heima við, merki um lygar, óregluleg skólasókn, lágar einkunnir og aukin áfengis- eða eiturlyfjaneysla. Þunglyndi birtist einnig oft í ergelsi, kvíða, stressi og sjálfsgagnrýni. Þessu fylgir oft lágt sjálfsmat og vangaveltur um sjálfsmorð. Ennfremur eru einkenni þunglyndis oft sjónvarpsgláp í ríkari mæli en eðlilegt þykir, kæruleysi, almennt áhugaleysi og skortur á líkamlegum þrifnaði. Síðast má nefna merki um áhættusama hegðun og tíð smáslys sem merki um þunglyndi.

Sýnt hefur verið fram á að tengsl eru á milli þunglyndis og sjálfsvígstilraunar.

Það skal tekið fram að allar þessar breytingar eru eðlilegar á unglingsárunum að einhverju leyti. Það er ekki fyrr en margar slíkar breytingar koma saman í ríkari mæli en eðlilegt þykir, að um geti verið að ræða þunglyndi. Sýnt hefur verið fram á að tengsl eru á milli þunglyndis og sjálfsmorðstilraunar. Hvernig getur foreldri eða aðstandandi unglings merkt að unglingurinn er hugsanlega í sjálfsmorðshugleiðingum?

Tal um sjálfsmorðsaðferðir, líf eftir dauðann og þess háttar getur gefið til kynna að viðkomandi er að hugsa um sjálfsmorð. Ef unglingurinn hefur tilhneigingu til þunglyndis, er mesta hættan á sjálfsmorði þegar þunglyndinu fer að létta. í dýpstu lægð þunglyndis hefur viðkomandi einstaklingur sjaldnar andlega eða líkamlega orku til að fremja sjálfsmorð. Ef einstaklingur hefur ákveðið að fremja sjálfsmorð hefst áætlun um aðferð, stund og stað. Plön af þessu tagi eru oft ákveðin með góðum fyrirvara. Þegar aðferðin til sjálfsmorðs hefur verið ákveðin má ætla að viðkomandi unglingi sé alvara. Alltaf skal taka hugleiðingar um sjálfsmorð alvarlega, jafnvel þótt þeim sé ætlað að vera grín. Sumir einstaklingar sem hafa ákveðið að fremja sjálfsmorð eiga það til að gefa góðum vinum persónulega hluti sem þeim hefur þótt vænt um og vilja þar af leiðandi koma í góðar hendur áður en þeir deyja.

Rannsóknir hafa sýnt að stór hluti karlmanna sem framið hafa sjálfsmorð hafa átt við ýmis hegðunarvandkvæði, fíkniefni og/eða áfengissýki að stríða. Kvenmenn, hins vegar, sem gert hafa tilraun til sjálfsmorðs hafa í mörgum tilvikum átt við þunglyndi að stríða. Ennfremur hafa þeir einstaklingar frekar haft tilhneigingu til að fremja sjálfsmorð sem af einhverjum ástæðum þjást af feimni eða öðrum félagslegum samskiptaörðugleikum, eru bitrir og/eða reiðir í garð sjálfs síns og annarra. Stúlkur reyna að fremja sjálfsmorð oftar en drengir en drengjum tekst yfirleitt „betur“ en stúlkum að fullgera verknaðinn. Aðalástæðan er sú að drengir nota frekar aðferðir sem virka fljótt og algerlega eins og byssukúlur í höfuð, reipi um háls eða koltvísýringseitrun úr bíl. Stúlkur gera frekar tilraun með aðferðir eins og of stóran skammt lyfja eða reyna að skera á slagæð. Þessar aðferðir virka, blessunarlega, ekki alltaf sem skyldi. Niðurstaðan er þar af leiðandi sú að fleiri stúlkur en drengir gera tilraun til sjálfsmorðs en færri stúlkum en drengjum tekst að fremja sjálfsmorð þegar upp er staðið.

Sú aðferð sem töluvert hefur verið notuð til að finna út hvort þeir einstaklingar sem framið hafa sjálfsmorð eigi eitthvað sameiginlegt með hverjum öðrum eða með þeim sem hafa ekki gert tilraun til sjálfsmorðs er kölluð „sálfræðileg krufning“ eða „psychological autopsy.“ Þessi aðferð felur í sér könnun á lífi þeirra aðila sem hafa framið sjálfsmorð. Rannsakandinn hefur samband við alla þá sem voru nátengdir hinum látna og á þann hátt kemst hann að hvernig lífi viðkomandi einstaklings var háttað.

Aðferð sem þessi veitir ýmsar upplýsingar sem varpað gætu ljósi á þær ástæður og orsakir sem hugsanlega liggja til grundvallar sjálfsmorðinu. Hér er um að ræða yfirlitsrannsókn yfir liðna atburði þar sem valinn samanburðarhópur er notaður sem viðmið. Það sem komið hefur fram úr slíkum rannsóknum er m.a. það að sjálfsmorð er sjaldan framið í fljótræði og hugsunarleysi. Hér er frekar um að ræða atburð sem hefur verið ákveðinn með góðum fyrirvara. Einnig má nefna að sjálfsmorð virðist sjaldan vera framið sem viðbragð við einum ákveðnum atburði heldur er sjálfsmorð oftar lokaatriði í lengra ferli óhamingju og vonleysis. Hins vegar getur atburður eins og lág skólaeinkunn eða ástarsorg, svo eitthvað sé nefnt, hrint sjálfsmorðstilraun sem lengi hefur verið í bígerð í framkvæmd.

Yfirleitt segir einstaklingur sem hefur ákveðið að fremja sjálfsmorð einhverjum frá ákvörðun sinni beint eða óbeint. Sumir fræðimenn telja að um sé að ræða leynda ósk um að reynt verði að koma í veg fyrir að sjálfsmorðstilraunin takist þar sem undir niðri langi unglingnum ekki til að stytta sér aldur heldur sé að gefa merki um að sálfræðiaðstoðar sé þörf. Þegar unglingur segir frá sjálfsmorðshugleiðingum sínum er honum oft ekki trúað, eða ef hann segir óbeint frá hugleiðingum sínum þá uppgötvar áheyrandinn oft ekki hvað fólst í skilaboðunum fyrr en um seinan. Gott er að vera á varðbergi gagnvart slíku tali og ávallt að taka unglinga alvarlega í þessum efnum. Ef foreldrar eða aðstandendur komast að því að barn þeirra er í sjálfsmorðshugleiðingum er ekki hjá því komist að ræða málið við viðkomandi einstakling. Á mörgum heimilum er umræða um sjálfsmorð bönnuð af ótta við að viðkomandi unglingur fái hugmynd til að framkvæma verknaðinn eða læri hluti sem auð- velda honum eða henni framkvæmdina. Ef bannað er að ræða um sjálfsmorð á heimilum eiga foreldrar það á hættu að komast aldrei að viðhorfum barna sinna til þess máls fyrr en jafnvel um seinan. Ef grunur er fyrir hendi um að unglingur sé í sjálfsmorðshugleiðingum er nauðsynlegt að ganga á unglinginn og fá hann til að tala um málið. Góð hlustun skiptir miklu máli og best er að forðast að bregðast við með hneykslun, ásökunum, skömmum eða gagnrýni. Markmið áheyranda í þessu tilviki, hvort sem um er að ræða foreldra eða aðra aðstandendur, ætti að vera að fá unglinginn til að treysta sér, hleypa sér inn í hugarheim sinn svo hægt sé að hjálpa honum að vinna á því vonleysi sem gripið hefur um sig. Ef upp kemur hvað hrjáir unglinginn verður hlustandinn að meta alvarleika ástandsins og taka ákvörðun samkvæmt því. Ástæður fyrir sjálfsmorðstilraunum geta verið margvíslegar. Öðrum en unglingnum getur þótt ástæðurnar af léttvægum og skammvinnum toga en í augum unglingsins geta þær verið fullgildar ástæður til að stytta sér aldur. Unglingur sem ákveðið hefur að fyrirfara sér þarf ekki endilega að eiga við geðræn vandamál að stríða. Hér getur verið um að ræða langvarandi óhamingju og vonleysi sem rekja má til ýmissa persónulegra eða félagslegra ástæðna. Algengt er að unglingur sem fremur sjálfsmorð hafi um lengri eða skemmri tíma verið að velta fyrir sér ýmsum leiðum út úr óhamingju sinni en að lokum komist að þeirri niðurstöðu að sjálfsmorð sé sú eina. Það sem síðan verður til þess að unglingurinn framkvæmir verknaðinn getur verið allt frá höfnun í fótboltafélag til alvarlegra geðsjúkdóma. Sum vandamál má ætla að leysist af sjálfu sér ef viðkomandi vill gefa þeim tíma og þar af leiðandi mun sjálfsmorðshættan hverfa. Önnur vandamál eru erfiðari viðfangs sem veldur því að sjálfsmorðshugleiðingar geta verið viðloðandi um ókominn tíma. í slíkum tilvikum þarf sá sem veit um sjálfsmorðshugleiðingar unglingsins að vera á varðbergi og gera viðeigandi ráð- stafanir. í vesta falli getur þurft að fá aðstoð neyðarþjónustu og fá einstaklinginn lagðan inn. Hér er um að ræða persónu sem hefur ótvírætt gefið í skyn að hann eða hún ætli að stytta sér aldur og er ekki tilbúinn að þiggja aðstoð af neinu tagi. Viðkomandi getur einnig talið öðrum trú um að hættan sé ekki lengur fyrir hendi jafnvel þótt hann sé ennþá ákveðinn í að gera tilraun. í slíkum tilvikum er erfitt að meta hættuna en ef talið er að hún sé ennþá fyrir hendi getur verið ráðlegt að vera í sambandi við geðlækni eða annað fagfólk sem getur síðan reynt að fylgjast með hegðunarmynstri og hegðunarbreytingum einstaklingsins eins náið og hægt er.

Fáeinar staðreyndir um sjálfsmorð
Ein af megin ástæðum fyrir því að einstaklingur gerir tilraun til sjálfsmorðs felur í mörgum tilvikum í sér aðra mikilvæga persónu í lífi einstaklingsins. Hér getur verið um að ræða rof á ástarsambandi, erfiðleika í samskiptum við foreldra, o.s.frv.

Flestir þeir sem gera sjálfsmorðstilraun eru í vafa hvort þeir vilja lifa eða deyja. Í mörgum tilvikum reynir viðkomandi að kalla á hjálp strax eftir að sjálfsmorðstilrauninni hefur verið hrint í framkvæmd. Þetta á auðvitað einungis við í þeim tilvikum þegar einstaklingurinn missir ekki meðvitund strax eftir að tilraun hefur verið gerð til sjálfsvígsins, heldur fær einhvern umhugsunarfrest. Hér getur verið um að ræða tilfelli þegar viðkomandi hefur tekið of stóran skammt af lyfjum eða skorið á slagæð.

Jafnvel þótt þunglyndi sé oft tengt sjálfsmorðshugleiðingum hafa ekki allir þeir sem fremja sjálfsmorð þunglyndistilhneigingar. Sumir eru kvíðafullir, hræddir, líkamlega fatlaðir eða vilja einfaldlega flýja þann veruleika sem þeir lifa í. Alkóhólismi/fíkniefnaneysla og sjálfsmorð haldast oft í hendur, þ.e. þeir sem fremja sjálfsmorð hafa oft einnig átt við áfengis/fíkniefnavandamál að stríða. Margir þeir sem fremja sjálfsmorð hafa aldrei verið sjúkdómsgreindir með geðræn vandamál.

Með því að spyrja einstakling sem er að hugleiða sjálfsmorð beint að því hvort hann sé í sjálfsmorðshugleiðingum minnkar oft kvíði og streita sem viðkomandi hefur þróað með sér samfara áætlun um að framkvæma sjálfsvígið.
Sjálfsmorð eiga sér stað í öllum aldurshópum, stéttum og kynþáttum.

Ef rannsóknir á sjálfsmorðum eru skoðaðar, kemur í ljós að meiri en helmingur úrtaksins hafði gert tilraun til að leita sálfræðilegrar aðstoðar einhvern tímann síðustu 6 mánuði áður en hann gerði tilraun til sjálfsmorðs. Í mörgum tilvikum hefur sá einstaklingur sem tekst að fremja sjálfsmorð gert misheppnaða tilraun(ir) áður á lífsferli sínum.

Þeir sem hafa gert tilraun(ir) til sjálfsmorðs en mistekist eru í þeim hóp einstaklinga sem eru í hvað mestri hættu á að endurtaka tilraunina.


Birt með leyfi höfundar : Kolbrún Baldursdóttir - sálfræðingur.

Kolbrún Baldursd.jpg

Greinin birtist á heimasíðu höfundar www.kolbrunbaldurs.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. janúar 1992