Ársskýrsla 2025
Nýtt ár lagðist vel í okkur og starfið fór vel af stað á árinu 2025.
Fyrsta verkefni ársins í Tónasmiðjunni var „Ljós í myrkri“ – ROKKUM gegn krabbameini. Þátttakendur voru um 40 talsins, flottur hópur á ýmsum aldri ásamt heiðursgesti okkar en að þessu sinni var það landsþekkta söngkonan Andrea Gylfadóttir. Góð mæting var í Heiðarbæ og styrktum við Krabbameinsfélag Þingeyinga og Ljósið um 200 þúsund krónur hvort um sig, þ.e. samtals 400 þús krónur.
Sumarið kom og áfram var haldið og við byrjuðum að undirbúa okkur fyrir árlegu tónleikasýninguna sem ber nafnið "Aðeins eitt LÍF“ til styrktar Píeta samtökunum. Sýningin er ár hvert haldin þann 10. september sem er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga en 2025 er níunda árið sem við vinnum verkefni tengt þeim degi, og munum sannarlega halda því áfram.
Um 20 manns tóku þátt í þessari sýningu þar á meðal heiðursgestirnir Erla Ragnarsdóttir og Ívar Helgason. Verkefnið gekk vel og styrktum við Píeta samtökin á Akureyri um 350 þúsund krónur sem var ágóði af tónleikunum.
Um sumarið ´25 spiluðum við einnig í skrúðgöngunni á 17. júní. Á Mærudögum héldum við FLOTTA tónleika á aðalsviði hátíðarinnar þar sem FLOTTUR hópur frá okkur kom fram og fékk mikið hrós fyrir.
Um haustið héldum við ótrauð áfram og réðumst í næsta verkefni sem var jólasýningin og bar hún eins og áður yfirskriftina “Jólin þín og mín.” Jólasýningin er sannkölluð tónlistarveisla sem var haldin í áttunda sinn og er orðin fastur punktur í aðventuhaldi í Norðurþingi. Hópurinn stækkaði töluvert og núna vorum saman komin um 70 þátttakendur á ýmsum aldri, sá yngsti 6 ára og sá elsti 77 ára. Til gamans má geta þess að sá elsti er langiafi þess yngsta.
Eins og i fyrra ákváðum við að setja jólasýninguna upp í íþróttahöllinni. Æft var stíft og mikill undirbúningur, enda krefjandi verkefni og stefnan sett á að toppa okkur einu sinni enn og halda GLÆSILEGUSTU sýninguna okkar hingað til. Heiðursgestir okkar að þessu sinni voru þrír. Landsþekkta söngkonan Elísabet Ormslev, jóladrottningin okkar hún Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir og yndislegi vinur okkar Ívar Helgason. Hrafnhildur Ýr er fyrir löngu orðin ein af okkur, enda hefur hún heimsótt okkur núna sex ár í röð
Auk þeirra þriggja voru sérstakir gestir magnaður stúlknahópur frá STEPS dancecenter á Akureyri ásamt danskennaranum Guðrúnu Huld og hið frábæra söngfélag Sálubót ásamt stjórnanda sínum Guðlaugi Viktorssyni. Þakklæti var okkur efst í huga til allra þeirra sem komu að þessu með okkur þegar við gengum frá þessu verkefni. Verkefnið var æðislegt en um leið krefjandi ferđalag, sem náði hápunkti sínum með þessum FLOTTU tónleikum. Mikið skipulag og margar æfingar sem skiluðu sér svo sannarlega. Í ár styrktum við Björgunarsveitina Garðar, en alls safnaðist 500 þùsund krònur í kringum jólasýninguna.
Á því herrans ári 2025 styrktum við því fjögur góð málefni um samtals 1250 þúsund krónur, Krabbameinsfélag ÞIngeyinga, Ljósið, Píeta og Björgunarsveitina Garðar.
Við erum afar stolt að geta sagt frá því að nú förum inn í tíunda starfsár okkar hér í Norðurþingi en auk þess er undirritaður nú að hefjasitt 20. starfsár í slíku forvarnarstarfi. Starf okkar fer stöðugt stækkandi þar sem við komum saman einstaklingum á öllum aldri, vinnum að skemmtilegum verkefnum saman og ALLTAF með jákvætt forvarnargildi að leiðarljósi. Á þann hátt gefum af okkur til samfélagsins og góðra málefna á landsvísu.
Í desember 2025 gaf Tónasmiðjan jólagjafir til heldra fólksins okkar í Hvammi og Skógarbrekku en það höfum við gert undanfarin 7 ár. Einnig voru sendar gjafir á meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot sem rekið er af Samhjálp.
Heimasíðan okkar thuskiptirmali.is gengur vel, og greinilegt að fólk er að lesa, fræðast og hlusta á efnið. Það er gott að fólk nýtir sér þessi verkfæri en stefnt er að því að uppfæra síðuna á komandi ári.
Gaman er að segja frá því að það eru að meðaltali um 500 heimsóknir á siðuna í mánuði hverjum.
Við erum nú þegar byrjuð að leggja drög ađ næsta verkefni sem hefst í janúar 2026. Sýningin "ROKK - afmælissýning" verður í maí nk. til styrktar starfi Tónasmiðjunnar. -Endilega fylgist með..
Um leið og við óskum ykkur öllum velfarnaðar á nýju ári 2026 viljum við þakka öllum þeim sem hafa sýnt okkur áhuga, hvatt okkur áfram, styrkt okkur og/eða rétt okkur hjálparhönd með einum eða öðrum hætti.
TAKK fyrir okkur!!!