Reynslusögur

„Ekki fara að gráta vertu sterk“.

Eineltið byrjaði þegar ég var c.a 7-8 ára, geri mér ekki alveg grein fyrir því hvað ég var gömul en ekki eldri en 8 ára.  Það voru 2 strákar jafn gamlir mér sem byrjuðu að uppnefna mig í frímínútum, ég held að ég hafi verið frekar frökk og hress stelpa og veit ekki hvað það var í fari mínu sem varð til þess að þeir völdu mig, en er eitthvað í fari þolenda eineltis sem veldur því að þau eru lögð í einelti?  Kannski stundum en í mínu tilfelli man ég ekki eftir að neitt hafi verið í fari mínu annað en að ég átti bróðir sem var kallaður xxxxx rauði. 

Þessir einstaklingar létu mig ekki í friði, uppnefndu mig með allskonar ljótum orðum, spörkuðu í mig og hentu mér í drullupolla.  Köstuðu í mig snjóboltum og reyndu að kaffæra mér í snjónum. Þeir tóku mig fyrir á leiðinni heim úr skólanum hlupu aftan að mér og hrintu mér, stóðu fyrir mér þannig að ég kæmist ekki heim til mín o.s.frv.  Þetta varð til þess að þeir brutu mig algjörlega niður ég fór að gráta við minnsta áreiti og það varð til þess að espa þá enn frekar. Þetta viðgekkst svona í nánast alla skólagönguna og var orðið það slæmt að mamma gat ekki sent mig út í búð á kvöldin því þeir vöktuðu húsið og börðu mig í klessu ef ég vogaði mér að fara út.  

Oft tóku aðrir strákar þátt í þessu, en voru þá svokallaðir áhorfendur, hjálpuðu kannski aðeins til og hvöttu áfram en ég man ekki eftir neinum alveg ákveðið.  Man eftir einhverri kaffærni þar sem hópur af strákum hjálpaði til, en hverjir það voru man ég ekki. Enda fyrir mér skiptir það engu máli. 

Ég held að ég hafi verið um 11-12 ára þegar ég sagði mömmu frá þessu, hún gerði ekkert, sagði mér bara að forðast þá. Þeir héldu áfram að vakta húsið mitt og vakta mig liggur við allan sólarhringinn.  Vinkona mín átti heima í næstu götu og veigraði ég mér fyrir að fara til hennar því þeir voru iðulega einhversstaðar í felum og biðu eftir því að ég kæmi út. Þeir einhvern veginn fundu mig alltaf. Áttu báðir heima rétt hjá mér svo það var svo sem ekki erfitt fyrir þá. 

Ég var farin að koma heim með blóðnasir, þeir rifu af mér skólatöskuna mína hentu skólabókunum í snjóinn og drullupolla, bara allt sem þeir gátu gert til að niðurlægja mig enn frekar.  Ég man mjög vel eftir einu tilviki þegar ég og vinkona mín vorum á leiðinni heim úr barnaskólanum, hún fékk að ganga eðlilega en þeir stóðu alltaf fyrir mér og ef ég reyndi að komast framhjá þeim þá var ég barin, þegar þeir byrjuðu að lemja mig sagði vinkona mín við mig „xxxxxx ekki fara að gráta vertu sterk”  Þetta var eitthvað sem ég gat ekki þegar eineltið var orðið svona mikið ég fór að gráta við minnsta áreiti. Ein aðferð sem ég man mjög vel eftir var að þeir hlupu aftan að mér og tosuðu mig í götuna með því að tosa í skólatöskuna, svo spörkuðu þeir í mig í götunni og hlupu í burtu. 

Eineltið hélt áfram og var bæði í skólanum (munnlegt), á skólalóðinni, enn aðallega í og úr skóla og fyrir utan heimilið mitt.  Sumarið tóku þeir líka í að sitja fyrir mér, stundum hugsa ég til baka og reyni að spá í það hver ástæðan var fyrir þessu, og hvaða rosa þolinmæði þeir höfðu því sumrin voru ekkert betri, ég held að þeir hafi bara ekki kunnað að leika sér og þetta hafi verið vani/leikurinn þeirra.  En svörin eru engin. 

Á þessu stigi var ég farin að finna fyrir svolítilli útilokun frá stelpunum, mér var til dæmis ekki boðið í afmælin, og fékk ekki að vera í kjaftaklúbbunum.  Þær voru endalaust að pískra eitthvað sem ég mátti ekki heyra, kölluðu mig heimska, og skrifuðu ljót bréf til mín. Þegar ég varð kynþroska fitnaði ég ört eitt sumarið og þegar ég kom í skólann og fór í íþróttir, fékk ég ekki frið fyrir sérstaklega einni stelpunni.  Það sem henni lá á hjarta var að segja mér hvað ég væri orðin feit og ég yrði nú að hreyfa mig svo ég yrði ekki spik feit, fékk að heyra eins og „djöfulsins fitubollan þín” „Ojj hvað þú ert feit” „ætlar þú að verða spik feit eins og mamma þín” o.s.frv. Það skrítna við þetta að þessi tiltekna stelpa var ekkert öðruvísi í vaxtalaginu, en ég veit til þess að hún lagði aðra í mjög slæmt einelti því hún var svo „horuð” að hennar mati, endalaust að segja við hana að hún væri með anorexíu og fengi aldrei að borða heima hjá sér, lærin á henni næðu ekki saman o.s.frv. En það sem bjargaði mér, var að ég átti eina vinkonu og á hana enn J 

Einelti hætti aldrei í minni skólagöngu, það minnkaði töluvert þegar ég var í 9. bekk. Ástæðan?  Fór að vera með gellunum sem reyktu, drukku og voru þessar töff týpur. En ég var þrátt fyrir þetta það sterk að ég sagði alltaf nei við reykingum og passaði mig alltaf í drykkju. Stóð því á mínu og sem betur fer lenti ég ekki í neinu rugli.  En auðveldlega held ég að það hefði geta gerst. Í 9 bekk var minna líkamlegt ofbeldi gagnvart mér en aðallega var notuð uppnefni ritað ljót orð og niðurlæging á borðin, veggi og klósettin. Það er ekki langt síðan ég var í skóla og vona ég svo innilega að það sé tekið betur á þessum málum núna.  Mamma mín sagði oft, þeir hætta þessu á endanum, láttu þá eiga sig, þeir nenna þessu ekki til lengdar. En jú þeir lögðu mig í einelti í 8-10 ár.

Það er alveg ótrúlegt hvað þetta hefur mikið að segja.  Ég trúði því að ég væri ömurleg, ljót, grenjuskjóða, timburhaus  og allt það. Ég hef reynt að loka á þetta tímabil í lífi mínu, en það mun alltaf fylgja mér.  Það sem fylgir mér í dag, er rosalega meðvirkni, mjög viðkvæm og lítið sjálfstraust. Ég hef þurft að glíma við þunglyndi, sjálfsmorðshugsanir sem betur fer hafa ekki komið upp í mörg ár. Ég sit og stend til að halda öllum góðum, alla mína skólagöngu, “keypti” ég mér vini, ég gerði allt til að fá að “falla” inní hópinn.  Ég passaði mikið börn á þessum tíma og vann líka aðrar vinnur og átti því oft pening, ég var endalaust að kaupa eitthvað handa þessum “vinum” mínum til þess að geta leikið við þau “einn” dag í viðbót. Enn þá daginn í dag þarf ég að stoppa mig af því ég fell oft í þá gryfju að „kaupa” mér vini, ég sem betur fer er í stórum og góðum vinahóp og þarf ekki að „kaupa” mér vini.  En stundum segi ég við sjálfan mig „Elísabet þú þarft ekki að gera þetta núna” En er þetta ekki samt komið til að vera? 

Ég hef þurft að ganga til sálfræðings til að ræða þessa upplifun á skólagöngu minni, en það sem er merkilegast við þetta er að ég man þetta allt í móðu, tímabil og staðsetningar eru ekki alveg réttar, á t.d. erfitt með að gera mér grein fyrir því hvenær eitthvað ákveðið atriði gerðist.  Ég hef því meðvitað reynt að gleyma þessari reynslu en man svo eftir öllum skemmtilegu hlutunum, man eftir alveg ótrúlegustu hlutum eins og þegar kennari minn í 8-9 ára bekk kom með sleikjó í skólann og gaf okkur 

Þeir eyðilögðu mína skólagöngu, ég missti áhugann á öllu og fannst ég bara vera einskis nýt, ég hafði gaman af handavinnu og stærðfræði og naut ég þess að vera í þeim tímum því iðulega gátu krakkarnir leitað til mín um aðstoð þar.  Tungumálin voru aftur á móti eitthvað sem ég náði aldrei, held að ég hafi bara ekki tekið eftir því sem var verið að kenna í þessum tímum því þessi fög lágu ekki fyrir mér og þurfti ég að hafa fyrir þeim. Sat stundum í tíma og hugsaði um það sem þau voru búin að segja og reyna að sannfæra mig um að ég væri þannig, ég hlýt að vera heimsk víst að þau segja það. Ég veit það í dag að þau áttu bágt en ég veit ekki af hverju þau völdu mig, langar ekkert endilega að vita það en samt? Kannski á ég einhvern tímann eftir að ganga að þeim og spyrja þá, en ég held að þau hafi engin svör og því er það örugglega gagnlaust.

Ennþá dag í dag fæ ég áreiti frá þessum einstaklingum, í miklu minna mæli en ég var t.d. að selja Herbalife og auglýsti í bæjarblaðinu og því vissu allir að þessari sölumennsku minni sem gekk nú bara mjög vel.  En þegar ég kom norður var annar þessa einstaklinga endalaust að skjóta á mig, hvernig er Herbalife, ertu hætt að selja Herbalife, Hvað ertu ekkert búin að léttast á þessu dufti? Er Herbalife daman mætt á svæðið  og alltaf með sérstökum niðrandi tón o.s.frv. Ég hef ekki selt þessa vöru í 5 ár en það eru bara nokkrir mánuðir síðan ég fékk skot frá honum. En þess á milli er hann voða ljúfur held bara að hann gleymi sér í vananum.

Við misstum okkar bekkjarbróðir fyrir nokkrum árum síðan, ég ásamt 3 vinkonum mínum hringdum í krakkana sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu og buðu þeim heim til mín og fengum við svo prestinn okkar til að koma og spjalla við okkur.  Það mættu allir nema ein stelpan og hittumst við 3 sinnum þessa viku áður en hann var jarðaður. Í þessum skiptum kom presturinn okkar alltaf og var með okkur, í einni umræðunni var rætt um það hvar við ættum að sitja í kirkjunni, hvort við færum upp eða fengjum bekki. Presturinn vissi að ég var að fara norður og hann vissi einnig að vinir hans væru að hittast út í safnaðarheimili um kvöldið.  Hann bað mig að fara þangað fyrir hönd helmings bekksins og ræða þetta við hina krakkana. Þarna fann ég rosalega mikið mótlæti, annar aðilinn sem lagði mig í þetta einelti alla mína skólagöngu gjörsamlega hakkaði mig í sig, eina sem ég sagði væri að við vildum fá að sitja saman í kirkjunni og því væri spurning hvar við ættum að sitja saman. Þarna er sjálfstraust mitt gagnvart þessum krökkum mjög lítið og fann hann og vissi hvernig hann gat brotið mig niður og nýtti sér það í botn þarna á þessum fundi. Ég mun aldrei geta fyrirgefið honum þetta.

Ég kvelst líka fyrir það að þegar ég var c.a. 10 ára byrjaði ný stelpa í bekknum, hún hét mjög sérstöku nafni sem mér er alveg ómögulegt að muna, ég ásamt 2 öðrum stelpum lögðum hana í hræðilegt andlegt einelti.  Þetta varð til þess að hún náði sér aldrei á strik í bekknum og á endanum fluttu foreldrarnir í burtu, mjög líklega út af þessu. Ég gæti óskað þess að ég myndi vita einhver deil á þessari stelpu og myndi hafa mig í að hafa samband við hana og biðjast fyrirgefningar úúfff mér finnst hræðilegt að ég hafi tekið þátt í því sama og ég var að ganga í gegnum.  Kannski sem betur fer fluttu þau og stóð þetta ekki yfir nema í 1-2 mánuði en það er 1-2 mánuði of mikið.


Með von um að þessi reynslusaga hjálpi ykkur eitthvað

Birt með leyfi höfunda

Hrikaleg saga af einelti:  Ég leiddist út í dóp og vændi

„Ég var lengi að átta mig á því hvað ég var djúpt sokkin. Stelpur sem voru með mér í skóla sögðu mér oft að ég væri byrjuð að selja mig en ég þvertók alltaf fyrir það. Ég vildi ekki horfast í augu við staðreyndirnar,“ segir fórnarlamb eineltis, sem gerði allt til þess að öðlast tilverurétt í þessum heimi.

Eftir áralanga útskúfun leið henni eins og hún væri Palli sem var einn í heiminum, ein og yfirgefin. Á Hlemmi kynntist hún svo loksins krökkum sem virtu hana viðlits og guðslifandi fegin fylgdi hún þeim í blindni ofan í heim fíkniefna, ofbeldis og vændis. Allt til þess að tilheyra hópnum. „Ég bara elti,“ segir hún. „Fyrst var ég meðvituð um að það væri eitthvað rangt við þetta því ég var með hnút í maganum en ég hunsaði það bara. Ég vildi vera með.“

Hún var að verða fimm ára þegar foreldrar hennar lentu í bílslysi sem hafði miklar og alvarlegar afleiðingar í för með sér. „Mamma hefur farið í 42 aðgerðir og báðir foreldrar mínir hafa verið illa funkerandi síðan. Þau voru mjög fljót að einangrast, urðu bæði þunglynd og vesluðust upp andlega og líkamlega. Í dag komast þau ekki upp úr rúminu án lyfjakokteils og heimur þeirra er aðeins innan veggja heimilisins. 

Áfallið breytti okkur öllum. Ég stökk í móðurhlutverkið og nánast ól litlu systur mína upp. Ég þroskaðist því hraðar en bekkjarsystkini mín. Systir mín fór í mótþróa og reif kjaft við allt og alla. Bróðir minn slapp best, hann er búinn með stúdentsprófin og er í háskólanámi í dag.“

Fljótlega var farið að stríða henni í skólanum fyrir að vera öðruvísi og vegna fjölskyldusögunnar. „Ég átti enga vini. Reyndar fékk ég stundum að vera með tveimur stelpum sem voru ekkert rosalega vinsælar í skólanum eða þegar fólk var farið að vorkenna mér mjög mikið. Síðan fór ég ein í bíó, sund eða keilu því ég þráði að gera eitthvað annað og skemmtilegra en hafði engan til að fara með. Þannig að ég sætti mig við það að fara ein.


Birtist í DV 30. mars 2011

„Ég var í Fossvogsskóla frá því í 1. og upp í 7. bekk og síðan Réttarholtsskóla frá 8. og upp í 10. Bekk“.

um vorið eftir 5. bekk flytur besta vínkona mín sem var líka önnur vinsælasta stelpan í bekknum í burtu. þegar ég kom í skólann eftir sumarið og byrjaði í 6. bekk var allt breytt. vinsælasta stelpan var e-ð í nöp við mig og allt í einu liggur við á einni nóttu fór ég úr því að vera vel liðin og eiga marga vini í báðum bekkjunum í árganginum í að vera á sama "leveli" og einhver sem er  með bráðsmitandi sjúkdóm. ég var svolítið þykk svo að sjálfsögðu var ég kölluð feit og svín og belja og svo framvegis, ég mátti ekkert eiga þá var það skemmt, ég mátti ekki segja neitt í tímum þá var gert grín að því og í raun mátti ég bara ekki vera til. ég var lamin af strákunum og niðurlægð af stelpunum sem nokkrum mánuðum áður höfðu verið bestu vínkonur mínar.

Við fórum á Reyki í hrútafirði um  haustið í 7. bekk og mér kveið svo fyrir að ég hélt ég myndi deyja, heil vika no stop með krökkum sem gátu ekki látið mig í friði og heill annar skóli í viðbót. ég svaf ekkert alla vikuna því ég var svo hrædd um að einhver myndi koma inn á nóttunni og gera e-ð hræðilegt. ég var lamin á hverjum degi af strák sem í dag er lögfræðingur og á víst að vera voðalega næs gæji. ég þurfti að fara í sund með þessum krökkum og það var bara helvíti út í gegn, að vera í sundbol fyrir framan fólk sem kallar þig feita og svín og að þú sért ógeðsleg er óendanlega niðurlægjandi. kom heim blá og marin og gjörsamlega niðurbrotin á líkama og sál og enginn hjálpaði mér, hvorki kennarar né fólkið sem var að vinna þarna. sem betur fer tókst þeim ekki að fá hinn skólann til að taka þátt í eineltinu á mér og fyrir það var ég svo ótrúlega þakklát.

Einn daginn seint í 7. bekk var ég send til námsráðgjafans, hún heitir Sigrún og er gjörsamlega vanhæfasti einstaklingur í sínu starfi sem ég hef fyrirhitt á ævinni og ég mun aldrei fyrirgefa henni fyrir þennan fund. hún tekur mig sem sagt inn á skrifstofu hjá sér og við spjöllum e-ð saman, á þessum tímapunkti var ég orðin mjög þunglynd og kvíðin, alveg hætt að borða og svaf eins mikið og ég gat. farin úr því að vera hress og skemmtileg í tímum og taka virkan þátt í því sem var að gerast í að vera lítil, hljóðlát, læðast með fram veggjum og aldrei opna á mér munninn,  borðaði aldrei nesti í skólanum og tók aldrei fúslega þátt í neinu sem var að gerast. þessi Sigrún sem sagt er að spyrja mig hvað sé í gangi og ég brotna gjörsamlega saman og grét úr mér augun og segi henni hvað sé í gangi og hún segir við mig ORÐRÉTT: "geturðu ekki bara reynt að vera ekki fyrir ef krökkunum er svona illa við þig" á þessu augnabliki tók hún af mér allan tilverurétt og enn í dag 11 árum seinna er ég enn að reyna að sannfæra sjálfa mig um að ég hafi alveg jafn mikinn rétt á því að vera hérna eins og allir aðrir.

þegar ég komst upp í réttarholtsskóla var ég það heppin að ég var að æfa fótbolta með stelpu sem var í Breiðagerðisskóla og þessir 2 skólar sameinast í réttarholtsskóla og við sóttum um að fá að vera saman í bekk.  hún var að koma úr svipuðu ástandi og ég og við sameinuðumst í að reyna að halda lífi og sem betur fer. allt í einu var ég ekki palli var einn í heiminum og mér byrjaði ótrúlegt en satt að líða betur. við vorum kallaðar belju gengið og e-ð þvílíkt ömurlegt. en ástandið batnaði samt því nú fóru krakkarnir að hafa áhuga á öðrum hlutum heldur en að gera okkur lífið leitt, þau fóru að para sig saman, djamma og þar fram eftir götunum.

við vinkonurnar fórum að hanga með krökkum sem voru að koma í svipuðum aðstæðum, reiðir, alveg sama um allt og alla, hlustuðu á rokk "reiða tónlist", drukku, sváfu hjá og notuðu dóp ... svokallaðir manson-ingjar því þau voru í útliti eins og marilyn manson. þegar við byrjuðum að lita á okkur hárið svart, gata okkur út um allt og ganga um með gaddaólar breyttist viðhorfið í skólanum til okkar. nú vorum við bara skrítnu gellurnar í beljugenginu og oftast vorum við bara hunsaðar og það hjálpaði líka til að við vorum báðar rosa góðar í fótbolta og mættum alltaf í leikfimi annað en hinar stelpurnar. þegar við útskrifumst úr 10. bekk erum við báðar "pissed off", við treystum engum og með ekkert sjálfsálit eða sjálfstraust.

Ég kom af mjög erfiðu heimili, samband foreldra minna var rosalega stormasamt og þau rifust fyrir framan mig bæði drukkin og ódrukkin mjög oft. ég man eftir auglýsingunum "kvíður barnið þitt helginni" og í hvert einasta skipti hugsaði ég JÁ !! hálfsystkini mín 2, mikið eldri, voru líka rosalega erfið í umgengni svo ég var rosalega brotin einstaklingur þegar eineltið byrjaði svo ég upplifði þetta svolítið eins og ég hefði engan griðastað. eftir að ég útskrifaðist og eineltið hætti var ég brotin og þráði bara að einhver viðurkenndi mig. ég byrjaði í sambandi við mann sem var 8 árum eldri en ég, fyrrverandi fíkill og virkur alkahólisti. hann var rosalega vondur við mig, lamdi mig, hótaði mér og í eitt skiptið þegar það vera ekki nóg nauðgaði hann mér.

í 11 ár hef ég setið eftir með skömmina, reiðina og að ég ætti ekki að vera fyrir. það var ekki fyrr en ég fór inn í coda-samtökin í fyrravor að ég fór að átta mig á því að þetta var ekki mér að kenna, ég gerði ekkert rangt þetta voru krakkarnir sem voru með mér í árgangi. ég á eftir að þurfa að díla við afleiðingarnar af þessu það sem ég á eftir ólifað en ég mun gera það því ég er sterkari fyrir vikið.

Kennarar og stafsfólk í skólum þarf að huga að þessu og passa hvað það segir við þolendur eineltis, það þarf að passa að varpa alls ekki sökinni yfir á þolendurna eins og gert var við mig því þetta er ekki okkar sök og við eru ekki fyrir ... við erum bara til !!


Reynslusaga

Ég er að verða fimmtugur og langar að deila því hvað einelti gerir sumum okkar . þetta byrjaði þegar ég fluttist til Keflavíkur og byrjaði þar í skóla 8 ára gamall, ég var settur í bekk fyrir þá sem voru á eftir og lenti fyrst fyrir aðkasti  þess vegna . þetta ágerðist alla mína skólagöngu , einhvern veginn átti ég ekki samleið með skólasystkinum mínum og félagslegar aðstæður hjálpuðu ekki til , átti heima í bæjarblokk og þar var öllum strítt , þau uppnefni sem ég fékk á mig voru svo ljót að ég hef þau ekki eftir , marga daga fór ég heim úr skólanum á miðjum degi , ég eignaðist þrátt fyrir þetta einn góðan vin og það gerði oft gæfumuninn .

Ég hætti í skóla og fór að vinna 14 ára vann í fiski og á sjó og alltaf loddi við mig þessi árátta að mér var strítt og píndur af samferða fólki , það var samt á 16 ári að ég kynntist krökkum sem voru eldri en ég  þau reyktu hass og drukku brennivín , ég fór að gera það líka og small inn í hópinn loksins var mér tekið eins og ég var lífið var gott ég gifti mig eignaðist dóttur , keypti fyrsta húsið mitt og var á sjó , það var nokkuð mikil neysla á mér þegar ég var í landi á 20asta aldursári var ég skilinn og neyslan jókst en félagsskapurinn var allt og víman ég var látinn í friði . þegar ég er 23 ára fer ég í meðferð og hætti , en það leið ekki á löngu þar til ég var aftur farinn að verða fórnarlamb stríðni og eins og áður varði ég mig ekki heldur beit á jaxlinn og þóttist ekki láta þetta hafa áhrif á mig svona gekk þetta þangað  til ég var 26 ára þá gerðist eitthvað , ég tók á móti og skellti manninum upp að vegg og sagði að hann skyldi aldrei koma svona fram við mig aftur , það var vendi punktur hjá mér að taka ábyrgð á því hvernig aðrir komu fram við mig , eftir þetta atvik hefur varla nokkur maður reynt að gera grín að mér , svo skrítið sem það er .

En spurningin situr eftir bauð ég uppá þetta sjálfur , var ég að leita eftir athygli og viðurkenningu sem ég fékk ekki , og þáði þá neikvæða athygli í staðinn , ég hef velt þessu fram og aftur og fæ engan botn í þetta .

Fyrirgefning bætir margt og ég hef fyrirgefið öllum , því ég veit að þeir sem leggja í einelti eru með jafn brotna sjálfsmynd og við sem verðum fyrir þessu . Þeir eru nefnilega líka utangarðs og aðlagast ekki . það tók mig lengstan tíma að fyrirgefa mér , að horfa fullorðinn maður á sjálfan mig sem barn og í huganaum taka utanum mig og segja þetta er allt í lagi þú gerðir ekkert rangt og mér þykir vænt m þig .

Samt hefur þetta litað mitt líf , skilnaðir  , brotinn tilfinninga sambönd , vinátta sem hefur flosnað upp , ábyrgðarleysi , þetta hefur fylgt mér  en með vinnu er hægt að laga sjálfan sig , læra að teysta , læra að elska , læra að það er ekki höfnun þótt einhver sé ekki á sömu skoðun, og maður á rétt á að vera maður sjálfur  með kostum og göllum .

Ég er heppinn ég hef ekki notað vímugjafa eða áfengi í tæpa þrjá áratugi , og það hefur gert mér kleift að vinna með mig.

Hvert skref sem ég næ í átt að því að passa í normið er gott skref.

Ég vona að ykkur takist að losna úr viðjum eineltis það er vinna en það er hægt .


Játning  bestu vinkonunnar eyðilagði næstum líf mitt

Ég var lögð í andlegt og líkamlegt einelti frá 4. bekk til 10. bekkjar í litlu samfélagi. "Bestu vinkonurnar" eða þær sem allir töldu vera það, voru verstar í því tilfelli.

Mér var aldrei boðið í afmæli.  Ég var kölluð ljót. Þær sögðu að ég hlypi asnalega. Hræktu í augun á mér og yfir andlitið. Eyðilögðu dótið mitt. Felldu mig og gerðu grín af því hvernig ég klæddist (þó ég klæddist því sem var í tísku hverju sinni).

Ég meikaði mig og málaði. Samt var ég ennþá ljót. Þær fundu bara aðrar ástæðu til að stríða mér. Ég var hrædd við að verða feit og verða strítt út af líkamsvexti. Ég gerði allt til að grennast og vera grönn og fékk þar af leiðandi átröskun.

Ég þurfti að flytja úr bænum til að fara í framhaldsskóla. Fyrsta önnin var fín en svo byrjaði eineltið aftur. Ég svaf hjá strákum gegn eigin vilja til þess að reyna að falla inn í hópinn. Þó var það ekki rétta lausnin. Ég var beitt kynferðislegu ofbeldi og var þvinguð til að gera ýmsa hluti sem ég hafði ekki áhuga á með þessum strákum. Og mér var nauðgað.

Í framhaldinu var ég svo lögð i einelti fyrir það eitt að sofa hjá þessum strákum. Stelpurnar sem voru skotnar í sömu strákunum bjuggu til sögur um mig.  Ég var kölluð ljótum nöfnum. Á endanum fann ég loks hóp þar sem ég féll inn. Sá hópur voru dópistar. 

Ég byrjaði í hass neyslu 17 ára gömul. Síðasta atvikið sem kom upp í bæjarfélaginu var árás af hálfu stelpuhóps. Ég var lokkuð niður í bæ af stelpu sem ég taldi vinkonu mína. Þegar þangað var komið var hrækt á mig. Þær hrintu mér. Grýttu símanum mínum í jörðina. Hótuðu mér öllu illu. Sögðu hluti um mig sem ég vissi ekki einu sinni sjálf, fóru með ósannindi og mjög ýkta hluti. 

Einhverjir strákanna sem höfðu misnotað mig og notfært sér stöðu mína höfðu búið til ljótar sögur um mig. Þeir höfðu logið því að vinkonum mínum að ég sjálf væri að ljúga hinu og þessu. Ekkert af þessu var hins vegar satt.

Ég flúði skólann eftir tveggja ára veru í bæjarfélaginu og flutti í annan bæ. Eineltið minnkaði en var þó áfram til staðar. Þó átti eineltið sér nú stað á afmörkuðum stöðum og sjaldnast í skólastofunni,  þar sem ég hélt mér frá öðru fólki og til hlés. Ég talaði ekki við neinn í skólanum. Þar af leiðandi héldu árásirnar áfram í félagstengdum klúbbum utan skóla.  

Ég leitaði uppi minn félagsskap aftur og hélt neyslu áfram, en neyslan fór stigversnandi. Þegar ég loks útskrifaðist gat ég ekki hugsað mér að halda áfram í námi og fór út á vinnumarkaðinn. Ég þráði að hætta í neyslunni sem hafði staðið yfir í þrjú ár. Ég fór í vaktavinnu sem ég þoldi illa. Ónæmiskerfið hrundi og ég fór að taka upp regluleg veikindi. Vegna þeirra veikinda upphófst einelti á vinnustað mínum, sem varð til þess að ég hætti í vinnunni.

Ég tók að mér aðra vinnu, en gafst fljótlega upp því álagið sem henni fylgdi var of mikið. Launin voru hræðileg, ég var sett á taxta sem hefði sæmt ungling í Unglingavinnunni. Á endanum fór ég á atvinnuleysisbætur og þáði bætur í tvö ár, áður en ég gat hugsað mér að mennta mig meira.  

Á endanum valdi ég nám sem gaf mér möguleika á að geta starfað ein og óháð öðrum. Í dag starfa ég sjálfstætt og forðast alfarið náin samskipti við aðra. Ég hef þrisvar sinnum endað á sjúkradeild vegna tilrauna til sjálfsvígs og hef verið greind með félagsfælni, kvíða og þunglyndi sem allt má rekja til afleiðinga eineltis og misnotkunar.

Ég er 26 ára gömul í dag og stend mig vel í mínu starfi. Ég er sátt við sjálfa mig. Ég á börn og eiginmann.

Þó á ég mjög fáa vini. Ég hleypi fáum að mér en er til staðar fyrir mína nánustu í öllum svona aðstæðum.

Takk fyrir eineltið! Þetta er eitthvað sem er aldrei hægt að taka til baka!



Bleikt.is  18,mars 2011

„Sonur minn er ekkert skrímsli“

„Ég veit ekki hversu oft ég hef grátið yfir þessu, fyrir framan hann, ein og á fundum með foreldrum annarra barna. Ég er viðkvæm og tók það alltaf rosalega nærri mér hvað hann var að gera öðrum,“ segir Jóhanna Ósk Gunnarsdóttir, móðir 14 ára drengs sem lagði skólasystkini sín í einelti í sex ár. „Að eiga barn sem er gerandi er ekki auðvelt. Mér leið mjög illa.“

Sjálfur segist drengurinn hafa lagt í einelti til að reyna að vera aðalgæinn fyrir strákana, þeim hafi þótt þetta flott. „Það var mjög heimskulegt að gera þetta og ég fékk ekkert út úr þessu.“

Eftir nokkra umhugsun urðu þau mæðgin ásátt um að deila sinni reynslu með öðrum því eins og hún segir eru gerendur í eineltismálum líka börn sem þurfa að fá hjálp. Sjálf leitaði Jóhanna allra leiða til þess að fá hjálp fyrir drenginn sinn og opna augu hans fyrir því hvaða áhrif svona framkoma hefði á aðra. Þrátt fyrir óteljandi fundi með skólastjórnendum, foreldrum annarra barna og fagfólki var það var ekki fyrr en hann varð tólf ára sem hann áttaði sig á því hvað hann var að gera. Hann gleymir þeirri stund aldrei, en það gerðist þegar bekkjarsystir hans brotnaði niður í skólanum og hann sá sorgina í svip hennar. Um leið fékk hann sting í hjartað, áttaði sig og hætti að koma svona fram. Síðan hefur hann reynt að hjálpa öðrum sem verða undir í skólanum og vill nú vekja önnur börn til umhugsunar með því að deila reynslu sinni, því hann sér mikið eftir þessu.

„Ég er alveg með kökkinn í hálsinum yfir því að vera að tala um þetta í blöðunum. Mér finnst það mjög erfitt og ég óttast það hvað ég sé að gera honum. Ég óttast viðbrögð fólks, að fólk muni dæma okkur og að hann verði útmálaður sem eitthvert skrímsli. Sonur minn er ekkert skrímsli. Öll börnin mín eru með gott hjartalag, hvert eitt og einasta.“

Sonur hennar var sex ára þegar hún var fyrst kölluð til skólastjóra út af einelti. „Þá tók hann bekkjarsystur sína fyrir og ég talaði við kennarann, foreldra og skólastjórann. En hann man ekki eftir því lengur. Ég man þetta óljóst sjálf, það hefur svo margt gengið á. Frá upphafi skólagöngunnar hefur verið vesen á honum. Síðan hætti hann að stríða þessari stelpu og það liðu nokkrir mánuðir þar til hann byrjaði aftur. Þetta var alltaf sama sagan. Stundum liðu alveg tveir mánuðir án þess að nokkur yrði var við neitt. Því fylgdi alltaf léttir og í hvert skipti vonaðist ég til þess að nú væri þetta komið, að nú hefði okkur tekist að ná til hans. En það kom alltaf eitthvað upp aftur. Ég fékk því í magann í hvert skipti sem skólinn hringdi.“


Birtist í Dv  11. Mars 2011