Matarfíkn/átröskun

Hvað er matarfíkn?

Þráhyggja gagnvart mat, þráhyggja gagnvart þyngd og að missa stjórn yfir magninu sem borðað er.


Einkenni matarfíknar

Þessi einkenni fela í sér að fíkillinn, þrátt fyrir alvarlegar afleiðingar þess, hefur óstjórnlega þörf til að breyta líðan sinni, sem hann gerir með síendurteknu ofáti.

Merking orðsins “matarfíkn” gefur til kynna að um er að ræða lífeðlis- og líffræðilegt líkamsástand, sem orsakar óstöðvandi löngun í unnin kolvetni.  Þessu ílöngunarfyrirbrigði má líkja við löngun alkóhólistans í alkóhól. Það sem er sameiginlegt með alkólhólistum og matarfíklum, er nauðsyn þess að halda sig frá fíknkveikjandi efnum.
Þetta þýðir í raunveruleikanum; “ég get ekki setið hér afslappaður og haldið mig frá því að hlaupa í eldhúsið og klára smákökurnar og fyrst ég er komin þangað, þá get ég alveg eins klárað úr ísdollunni líka”.

Hversu gagntekinn matarfíkillinn er af mat, sést best á síendurteknum hugsunum hans um að ná sér í, undirbúa og borða ákveðin matvæli, venjulega þessi klístruðu, mjúku og feitu.  Vegna þess hve matarfíkillinn er haldinn mikilli þráhyggju í mat og hve mikið hann borðar, er þyngdaraukning eðlilegur fylgifiskur.  Stundum gífurlega mikil þyngdaraukning.  Þegar þannig er komið byrjar fíkillinn að hafa áhyggjur af stærð og sköpulagi sínu.  Hann þjást vegna útlitsins og sjálfsmyndin þjáist líka.

Kýs matarfíkillinn sér að vera svona?  Að sjálfsögðu ekki.  Viðkomandi einstaklingur hefur erft þessa fíkn ásamt stóru bláu augunum sínum og ljósa hárinu.
Vísindamenn hafa borið kennsl á sama gallaða genið í stórum prósentuhópi af einstaklingum sem eru fíknir í alkóhól, mat, kókaín og nikotín.

Bati frá matarfíkn

Til að matarfíkill nái bata þarf hann að gera viðeigandi ráðstafanir með hvað skal borðað frá degi til dags.  Þar sem matarfíklar þurfa að borða á hverjum degi, er nauðsynlegt að kanna innihald þess matar sem borðaður er, með það að markmiði, að borða aðeins mat sem er laus við þau efni sem kveikja sjúkdóminn. 


Offita er líka átröskun


Í daglegri umræðu er gjarnan rætt um sjúkdómana lystarstol og lotugræðgi sem átröskunarsjúkdóma, en offitu frekar sem „vandamál“. Offita er líka átröskun og ætti að vera rædd og meðhöndluð sem slík. Um er að ræða stjórnleysi á fæðuinntöku í mörgum tilvikum langt umfram það sem líkaminn þarfnast til daglegrar brennslu. Ólíkar tegundir af átröskun hafa mörg sameiginleg einkenni enda þótt orsakir þeirra séu sjaldnast einhlítar né augljósar. Þeir sem eru haldnir þessum röskunum gera sér t.d. oft ekki grein fyrir þegar röskunin hefur náð alvarlegu og stundum lífshættulegu stigi.

Þrátt fyrir mikla umræðu um holla fæðu, heilbrigðar matarvenjur og mikilvægi hreyfingar stríða æ fleiri íslendingar við offitu. Börn eru þar engin undantekning. Í sumum tilvikum er um fjölskylduvandamál að ræða. Í þessum fjölskyldum er ofát stundum samþykkt sem einhvers konar venja eða hefð. Ekki eru endilega gerðar athugasemdir né gripið inn í með einhverjum hætti þótt fjölskyldumeðlimur, jafnvel barn, er kominn í mikla yfirþyngd. Áhugi á hollustu og hreyfingu er oftar en ekki í lágmarki í þessum fjölskyldum.

Barn sem elst upp við að horfa á foreldra sína borða á sig fjölda aukakílóa er líklegt til að taka upp sömu matarvenjur. Það er vissulega ekki sjálfgefið að barnið muni endilega þjást af offituröskun en líkurnar hljóta hins vegar að aukast. Af fyrirmyndunum að dæma eru skilaboðin þau að það sé í lagi að borða sig feitan. Þau skilaboð sem börn fá síðan frá ytra umhverfi sínu eru af allt öðrum toga og ekki endilega neitt jákvæðari. Hér er verið að vísa í fyrirmyndir þar sem horuðu kvenfólki er gert hátt undir höfði. Barn sem er óánægt með útlit sitt og líkama er í ákveðinni hættu á að samsama sig þessum fyrirmyndum og taka til við að líkjast þeim með því að draga óhóflega úr fæðuinntöku. Besta forvörnin gegn þessari vá er að barnið sé aldrei það óánægt með sjálft sig að það telji sig knúið til að misbjóða líkama sínum með því að svelta sig.

Barn sem elst upp í fjölskyldu sem hugar að hollustu, hóflegum matarvenjum og þar sem stunduð er hreyfing af einhverju tagi er líklegt til að taka upp ámóta venjur. Öfgalaus lífsstíll þar sem hvorki er samþykkt að vera í yfir- né undirþyngd leiðir mjög líklega til þess að fjölskyldumeðlimirnir, eldri sem yngri, líði vel með sjálfa sig, finni til sjálfstrausts og sjálfsöryggis.

Í dag er fjöldi barna og unglinga í yfirþyngd. Offita á barnsaldri hefur neikvæð áhrif á sjálfsmyndina enda er barn, sem á við offituröskun að stríða, útsettari fyrir neikvæðum athugasemdum frá umhverfinu. Hvernig eiga foreldrar að bregðast við þegar þeir skynja að börnum þeirra líður illa með sjálfa sig vegna yfirþyngdar sinnar?
Nefndar hafa verið lausnir svo sem að segja þessum börnum bara nógu oft að þau séu frábær hvernig svo sem þau eru. Dugir það til að bæta líðan þeirra?

Þrátt fyrir góðan vilja og góð ráð munu á öllum tímum finnast ungmenni sem eru í yfirþyngd og sum hver í alvarlegri yfirþyngd. Markmið okkar hlýtur að vera að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann. Hér er ábyrgð foreldranna mikil. Það kemur í hlut þeirra að fylgjast náið með vexti og þroska barnsins. Ef þeir taka eftir því að barnið þeirra er að þyngjast umfram það sem almennur þroski þess gerir ráð fyrir er mikilvægt að nefna það fljótt. Saman geta foreldrar og barn leitað orsaka hvort sem þær eru að finna í neyslumynstrinu, fæðutegundum eða skorti á hreyfingu. Ef gripið er fljótt inn í er mun auðveldara að hjálpa barninu að ná aftur kjörþyngd. Ástæðan fyrir því að margir foreldrar veigra sér við að ræða þessi mál við barnið sitt er ótti við að það bregðist harkalega við og grípi þá jafnvel til þess ráðs að hætta að borða. Hins vegar liggur það í augum uppi að ef ekki er horfst í augu við þessa eða aðra röskun af svipuðum toga er allt eins sennilegt að sjálfsmyndinni sé ógnað og hún jafnvel skaðist til lengri tíma.


Birt með leyfi höfundar
Höfundur er Kolbrún Baldursdóttir Sálfræðingur
Birt í Mbl. 8. janúar 2007.


Matarfíkn er stigversnandi sjúkdómur

„Hafi maður einlæglega reynt að hætta að nota ákveðin matvæli og það ekki tekist, má búast við því að sá hinn sami eigi við matarfíkn að etja. Þeir fá hinsvegar fæstir varanlega lausn sinna mála nema leita sér hjálpar," segir Esther Helga, sem sjálf hefur prófað alla mögulega og ómögulega megrunarkúra auk stólpípuhreinsana í gegnum tíðina.

Henni tókst að snúa vörn í sókn með því að leita til sjálfs hjálparsamtaka, sem vinna eftir 12 spora kerfinu.  

Það er svo frábært fyrir okkur matarfíklana að fá mikinn mat þegar við höfum eytt
lífinu í stanslausri megrun og hungri, en samt alltaf sokkið dýpra og dýpra."
Samkvæmt tölum Lýðheilsustöðvar er um helmingur þjóðarinnar of þungur.
„Auðvitað á allt þetta fólk ekki við matarfíkn að etja.  Flestir geta sett sér mörk og farið eftir þeim. En þeir sem eru komnir í vítahring fíknarinnar geta það ekki án hjálpar.

Matarfíkn er stigversnandi sjúkdómur, sem leiðir smátt og smátt til þess að maður missir fótana, við verðum síðan eins og segir í AA bókinni, eins og maður sem hefur misst báða fæturna, það vaxa aldrei nýir í staðinn. Við þurfum því að læra nýjan lífsstíl.  Fyrst og fremst þurfum við að komast í fráhald frá fæðutegundum sem valda okkur fíkn og breyta því hvernig okkur líður. Síðan þarf að skoða tilfinningalega og andlega þáttinn.  Hvað er undirliggjandi, hvað olli því að við fórum að nota mat til að láta okkur líða betur?” 

Reynslusaga af átröskun

Ég var farin að einangra mig, vildi helst bara borða í einrúmi og faldi oft sælgætisbréf og annað slíkt til að fólk sæi ekki hvað ég var að borða. Ég var að borða yfir tilfinningar mínar, t.d. ef ég var reið, þreytt, sorgmædd eða einmana fannst mér best að borða til að láta mér líða betur. Líkamlegt ástand mitt var ekki gott, fékk reglulega mígrenishausverki og átti erfitt með að hreyfa mig.

Þegar ég prófaði að fara á OA fundi fann ég fólk með samskonar vandamál og ég og það tók vel á móti mér. Þetta fólk hafði fengið lausn við þessu vandamáli. Þegar þau sögðu frá sínum reynslusögum, gat ég alltaf fundið sjálfa mig í þeim. Áður en ég vissi af voru þessir fundir farnir að hjálpa mér og ég komst í svokallað fráhald. 

Hver og einn skilgreinir sitt fráhald. Fráhaldið mitt er þannig að ég borða þrjár máltíðir á dag og einn millibita og set bara einu sinni á diskinn, ég hef tekið út öll sætindi og mjög feitan mat, því að það voru þær fæðutegundir sem ég var mest sólgin í. OA er ekki megrunarklúbbur heldur samtök sem ganga út frá því að maður sé með fíkn í ákveðnar matartegundir. Tekið er á þessari fíkn eins og AA samtökin taka á fíkninni í alkóhól. 

Ég fékk mér trúnaðarkonu og fór að vinna reynslusporin 12. OA samtökin bjóða upp á andleg leið og þessi leið hefur breytt lífi mínu. Ég hef misst 25 kg en það er ekki það besta, mér líður miklu betur á allan hátt, andlega, tilfinningalega og líkamlega. Mígrenishausverkjunum hefur fækkað til muna, ég finn ekki fyrir gallsteinunum og á auðveldara með að hreyfa mig.

Ég hef öðlast meira sjálfsálit og er farin að geta horft í spegil án þess að hugsa bara "æj bara ef ég væri með aðeins minni maga, bara ef ég væri með minni undirhöku ....". Fyrir mér er þetta algjört FRELSI og til þess að halda þessu frelsi þarf ég að mæta reglulega á fundi og vinna prógrammið sem OA leiðin býður upp á. Ég dæmi mig ekki lengur fyrir að vera aumingi sem hefur engan viljastyrk. Ég veit núna að ég er með sjúkdóm sem hægt er að halda í skefjum, EINN DAG Í EINU. 



Reynslusaga 34 ára konu sem byrjaði í meðferð í júlí 2006

Þegar ég ákvað að leita mér hjálpar hjá MFM miðstöðinni var ég 114 kg og fannst ég hafa reynt allt til að grennast.  Ég hef verið of þung síðan ég var barn og fyrir utan stutt tímabil á unglingsárunum hef ég alltaf verið þó nokkuð yfir kjörþyngd.  Frá barnæsku byrjaði ég af þrótti, jákvæðni og elju í öllum megrunarkúrum og líkamsræktarátökum sem ég fann en alltaf vann fíknin og ég féll ég aftur í sama ofátið – Féll inn í heim matarfíkilsins, sem er líkt og heimur annara fíkla,  einmanalegur, óheiðarlegur, fullur sjálfsvorkunnar og vanlíðunar.  Matarfíkn á það einnig sameiginlegt með öllum öðrum fíknum að hún er sjúkdómur einangrunarinnar og þegar ég var í ofáti þá vildi ég helst borða ein. 

Ég áttaði mig á því fyrir nokkrum árum að ég ætti við fíkn að stríða og fór að sækja fundi hjá O.A. samtökunum.  Þar vann ég 12 spora vinnu sem gerði mér gott og ég bý enn að þeirri reynslu.  Aftur á móti var fráhaldið mitt á þeim tíma ekki nógu sterkt, því ég fór ekki í fráhald frá nógu mörgum af þeim fæðutegundum sem valda mér fíkn.  Á endanum féll ég og í kjölfarið á því falli skráði ég mig í viðtal hjá MFM miðstöðinni.  Ég trúi því að það veki von hjá öllum matarfíklum að hitta Esther Helgu ráðgjafa.  Hún hefur náð ótrúlegum árangri og er einstök fyrirmynd fyrir fólk í leit að bata.   Eftir að hafa formlega verið greind matarfíkill af Esther Helgu hófst hópavinna einu sinni í viku sem stendur enn í dag.  Ég hef verið með 4-6 yndislegum konum í hóp og ég hef hlakkað til hvers fundar.  Esther Helga leiðir fundina og er fagmanneskja fram í fingurgóma, enda hefur hún náð að byggja upp mjög öflugt starf á stuttum tíma.  Á hverju kvöldi sendi ég inn tölvupóst til MFM stöðvarinnar með mataráætlun fyrir næsta dag.  Þannig næ ég að vera í fráhaldi einn dag í einu frá þeim matartegundum sem vekja hjá mér fíkn.  Það er ólýsanlegt frelsi sem felst í fráhaldinu því nú þarf ég ekki lengur að hugsa um það á milli máltíða hvað ég ætla að borða næst.  Máltíðirnar eru vel úti látnar og maður fær alltaf nóg.  Núna á ég lifandi og fjölbreytt líf á milli máltíða og líf mitt verður ríkara með degi hverjum.  Lífið snýst ekki lengur um mat og megranir. 

Þegar þetta er skrifað hef ég fengið að eiga 81 dag í fráhaldi frá þeim matartegundum sem vekja hjá mér fíkn.  Ég vigta mig einu sinni í mánuði og þegar tveir mánuðir voru liðnir hafði ég misst 9.6 kg.  Með því að vinna þá andlegu vinnu sem krafist er af mér í meðferðinni, og með því að fylgja mataráætluninni einn dag í einu hef ég eignast nýtt, mun bjartara líf.  Svona hefur líðan mín breyst síðan ég byrjaði:

-          Mér líður betur líkamlega, er búin að missa 9.6 kg

-          Mér finnst líf mitt vera á leið upp á við en ekki niður á við

-          Ég finn ekki fyrir fíkn í dag en var gagntekin af henni áður en ég byrjaði

-          Ég er bjartsýnni

-          Ég er þakklátari fyrir allt sem ég hef

-          Ég hef minni þörf fyrir að einangra mig, bæði þegar ég er að borða og þegar ég er ekki að borða

-          Ég hef fundið fyrirmynd í Esther sem ég lít upp til

-          Ég er byrjuð að hugsa jákvæðari hugsanir um sjálfa mig

-          Ég er komin með meiri sálarró

-          Ég lifi meira í núinu

-          Ég er sáttari við Guð og menn

Ef þú heldur að þú sért matarfíkill og ert komin/n í þrot þá mæli ég eindregið með þessari leið.  Þú munt ekki verða fyrir vonbrigðum ef þú ert tilbúin/n að gefast upp. 

 

Saga mín er svipuð og hjá öðrum sem komið hafa hingað

Ég var búin að vera í megrun eða í ofáti sl. 20 ár. Ofáti? Ég veit ekki hvað ég var búin að vera hér lengi þegar ég viðurkenndi að ég væri ofæta. Ég taldi mér trú um að ,,ÉG borðaði ekkert meira en aðrir samferðamenn mínir“ en það var ekki satt, ég át á kvöldin og um helgar yfir sjónvarpinu. Ég borðaði og vanlíðan, einmanaleiki og vonleysið var algert. Ég hafði enga stjórn á mataræði mínu, skömmin hafði yfirhöndina.

Þegar ég byrjaði hér var ég mjög hrædd, hrædd við þetta nýja mataræði, hrædd við að falla þó að ég vissi ekki alveg hvað það þýddi, hrædd við enn ein vonbrigðin ef þetta gengi ekki upp. Kannski var þetta bara enn einn megrunarkúrinn! Ég tók þá ákvörðun að gera þetta í 30 daga, fara alveg eftir því sem mér var sagt og sjá til hvernig þetta gengi. En eftir að ég var búin að vera hér í smátíma var ekki aftursnúið, því að upplifa frelsið var frábært, fíknin var farin ég var aldrei svöng, mig langaði ekki lengur í það sem ég hafði nærst á árum saman. Ég hafði ekki lengur þessa óslökkvandi þörf á því að borða stjórnlaust. Og það besta var að ég fékk þá tilfinningu að vera komin heim, leitinni var lokið. Hér gat ég verið alla tíð en bara einn dag í einu ef guð og gæfan fylgdi mér.

Maturinn sem ég má borða er óstjórnlega góður og ég geri hann girnilegri með degi hverjum. Ég er alltaf að læra meira og meira bæði í sambandi við matinn og líka hvað varðar mig sjálfa því ég er að breytast, léttist líka andlega, vanlíðanin er að hverfa smátt og smátt og það er stærsti vinningurinn í þessu máli. Ég er að upplifa það að andlegi hlutinn er það sem er í fyrsta sæti og þyngdartapið er bara bónus. Yndislegur bónus. Nú þegar einhver mál koma uppá í einkalífinu leysast þau mun auðveldar en áður og ég geng í að leysa málið og borða ekki yfir tilfinninguna sem upp kemur í það og það skipti.

Það að fara eftir prógraminu er auðvelt, vigtin er orðin einn af mínum bestu vinum og fer með hana með mér hvert sem ég fer. Hún segir mér hvað ég má borða mikið og við erum sáttar. Ég stefni á að fara í kjörþyngd og það er eitthvað sem ég hafði ekki séð fram á árum saman, gafst alltaf upp á miðri leið.

Ég kynntist Gráu síðunni þegar systir mín byrjaði hér, ég veit að ég væri á sama stað eða verri en ég var á ef ég hefði ekki stigið þetta gæfuspor sem ég gerði fyrir 5 mánuðum síðan. Þá var svartnætti og vonleysi í mínum huga, þó að ég sýndi það engum.

 

Fundarskrá OA

Fundir OA samtakanna eru haldnir á nokkrum stöðum um landið. Allir þeir sem telja sig eiga við matarfíkn að stríða eru velkomnir á fundi OA. Sumir fundir eru sérstakir kvenna eða karlafundir en aðrir eru opnir.

Sjá nánar: https://oa.is/fundir/

oa.png