Hefur þú reynt að skaða sjálfan þig?

Sjálfskaði er leið til að tjá innri sársauka og tilfinningakreppu, hvort sem sú kreppa stafar af sorg, reiði, ótta eða sjálfsfyrirlitningu. Líkaminn þjáist fyrir andlegan sársauka og eftir sitja sár og ör sem endurspegla sálarangist eða lífsháska viðkomandi.

Sjálfskaði tengist oft því að viðkomandi kann eða getur ekki tjáð tilfinningar sínar með orðum. þetta verður eina leiðin til þess að tjá sársauka – en svona ,,tungumál” skilja fæstir.

Jafnvel þó ykkur létti rétt á meðan þið skaðið ykkur, varir sá léttir ekki lengi, heldur endar í mikilli skömm og sektarkennd. Sjálfskaði er því óheppileg leið til að tjá tilfinningar og hætta er á því að þið festist í vítahringnum.

Vert er að hafa í huga að sjálfskaði er ekki ,,eitthvað tímabil” sem líður fljótt hjá svona eins og ,,unglingaveiki”, heldur getur vítahringurinn varað í allt að 20 til 30 ár.

Stundum eru þetta tilfinningaviðbrögð sem eiga rót sína í barnæsku. Kannski vegna þess að ykkur var svo mikið niðri fyrir- voruð svo reið eða döpur að þið hreinlega gátuð ekki sagt frá. Kannski var enginn sem hlustaði eða sagði ykkur að svona liði manni stundum og það væri allt í lagi, það gengi yfir. Kannski var enginn sem hlustað eftir ástæðunum fyrir því að ykkur leið svona illa.

Fjölskyldumeðlimir þurfa líka hjálp við að læra að hlusta og styðja í stað þess að gagnrýna og dæma.


Textinn fengin af síðu Pieta samtakanna

https://pieta.is/